133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:49]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ýmislegt við málflutning hv. þingmanns að athuga og mig langar að koma inn á nokkur atriði.

Hv. þingmaður nefndi skuldir heimilanna, sem er vissulega alvarlegt mál, en gleymir þá jafnframt að geta þess að eignir heimilanna umfram skuldir hafa aldrei verið jafnmiklar og í dag. Vanskil heimila og vanskil fyrirtækja hafa aldrei verið minni en í dag. Ég vil minna á að árið 1995 voru skuldir ríkis og sveitarfélaga í landinu 40% af landsframleiðslu. Í dag eru skuldir ríkis og sveitarfélaga innan við 9% af landsframleiðslu. Skuldirnar hafa því lækkað í mjög stórum skrefum á síðustu árum og við höfum náð miklum árangri hvað þetta varðar.

Og þó það nú væri, sagði hv. þm. Þuríður Backman, um að við værum að efla framlög og auka framlög til heilbrigðismála. En ég minni hv. þingmann á það að við þurfum að útvega tekjur gagnvart þessum útgjöldum. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar hefur verið mjög markviss og við höfum verið að stórauka tekjur ríkissjóðs til þess að standa undir þessum málaflokkum.

Hv. þm. Jón Bjarnason kemur hér upp skipti eftir skipti og talar um að ríkisstjórnin sé að skera niður í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Staðreyndin er sú að við höfum aukið framlög til heilbrigðismála um 27,5 milljarða að raungildi frá árinu 1998, um 49% að raungildi. Hvernig geta hv. þingmenn Vinstri grænna fengið það út að hér sé einhver últra hægri stjórn á ferð sem sé að skera niður framlög til málaflokksins þegar opinberar tölur sýna að við höfum verið að auka framlögin um 50% að raungildi?

Við höfum líka verið að auka samneysluna sem hlutfall af landsframleiðslu og hlutfall (Forseti hringir.) þessa málaflokks er 8% af landsframleiðslu í dag en var einungis 6,9% 1998.