133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom inn á málefni Íbúðalánasjóðs og húsnæðismarkaðinn. Það er stefna Framsóknarflokksins að standa vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs sem gegnir gríðarlega miklu hlutverki fyrir alla landsmenn, sama hvar þeir búa, til að þjónusta þá við það að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er skýr stefna Framsóknarflokksins að standa vörð um þá stofnun sem Íbúðalánasjóður er og ég vona að hv. þingmaður standi með okkur framsóknarmönnum í þeim efnum.

Hins vegar vil ég minna á og draga það fram í þessari umræðu hvert stefnumið ríkisstjórnarinnar er með því fjárlagafrumvarpi sem við höfum lagt fram. Verið er að auka barnabætur um 1,7 milljarða samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2007, um heil 25%. 16 og 17 ára unglingar munu nú njóta barnabóta. Þetta er ungt fólk sem stundar nám, oft fjarri sínum heimahögum, og bráðnauðsynlegt að koma til móts við þær fjölskyldur sem í þeim sporum standa. 25% hækkun í barnabótum á milli áranna 2006 og 2007 er því gríðarlega stórt mál og atriði sem við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á fyrir síðustu alþingiskosningar.

Við stórhækkum líka persónuafsláttinn, úr 78 þús. kr. upp í 90 þúsund eða um 14%. Það er mikið hagsmunamál fyrir eldri borgara og öryrkja. Ég tek undir með hv. þingmanni að trúlega megum við alltaf gera betur í þeim efnum. Við höfum verið að stíga mjög stór skref í þá átt að bæta kjör þessara hópa. Þeirri vegferð er ekki lokið en ég legg áherslu á að ríkissjóður verður að vera í stakk búinn til að standa undir meiri framlögum til þessara málaflokka og þá verða menn að hafa trúverðuga og öfluga atvinnustefnu sem tryggir það að ríkissjóður hafi fjármuni til þess að veita fé til þessara málaflokka. Því miður hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð enga trúverðuga atvinnumálastefnu hvað það varðar nema síður sé.