133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:59]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Það væri vel til fundið, áður en menn skoða þetta frumvarp, að líta til þess hvernig áætlanir og spár varðandi fjárlagafrumvarpið sem við förum núna eftir, fyrir þetta ár, hafa gengið eftir. Í fyrra spáði hæstv. fjármálaráðherra 4% verðbólgu en nú glímum við við tvöfalt hærri verðbólgu. Þetta er sá vandi sem við glímum við. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að þetta reynist heimilunum þungur baggi. Mér finnst það furðuleg umræða hjá stjórnarliðum að láta sem þetta sé ekkert mál. Þetta er stórmál fyrir fólk sem borgar háa vexti ofan á verðbólguna. Þetta kemur einnig illa við þá sem þurfa að fjármagna sig með skammtímalánum og yfirdrætti á 23% vöxtum. Þetta rífur í.

Ég vorkenni að vissu leyti framsóknarmönnum í þessari umræðu vegna þess að sjálfstæðismenn hafa algerlega fríað sig ábyrgð á þessu og kennt 90% lánum Framsóknarflokksins um vegna þess að þau hafi kveikt þessa elda. Vel má vera að eitthvert sannleikskorn sé í því. Ungir framsóknarmenn boðuðu ungu fólki að það yrði mesta gæfa sem gæti hent ungan mann eða konu að fá 90% lán hjá Framsóknarflokknum og þess vegna ættu menn að kjósa flokkinn. En þetta hefur síðan reynst þungur baggi fyrir efnahagslífið og kveikti það verðbólgubál sem við glímum við þessa dagana. (Gripið fram í.) Nei, þetta reyndist ekki þessa góða gjöf heldur er erfitt fyrir fólkið að eiga við þetta, sérstaklega nú þegar verðbólgan er farin af stað, að vera með 90% lán frá Framsóknarflokknum sem átti að bjarga öllu.

En hver hafa viðbrögð stjórnmálaflokkanna sem ráða ferðinni í landsmálunum verið? Við vöruðum fyrir ári við hættunni á þenslu en þeir skelltu einfaldlega skollaeyrum við. Það var ekki fyrr en í sumar sem þeir ákváðu að bregðast við. Hvað gerðu þeir? Jú, þeir drógu til baka hækkanir á hæstu lánum Íbúðalánasjóðs sem þeir voru nýbúnir að hækka. Þeir höfðu hækkað þau þremur mánuðum áður en drógu síðan hækkunina til baka og hættu við kosningaloforðalán Framsóknarflokksins. Því miður fyrir framsóknarmenn sitja þeir uppi með skömmina og sjálfstæðismenn hafa algerlega fríað sig af því ástandi sem hér ríkir.

En þar fyrir utan var farið í að draga úr framkvæmdum á landsvæðum sem búa við kreppu. Fólki fækkar á þeim landsvæðum, m.a. vegna erfiðra samgangna. Síðan þegar ríkisstjórnin boðar samdrátt, eingöngu á þeim svæðum þar sem samdráttur var fyrir þá skildum við í Frjálslynda flokknum ekkert í því. Við höfðum margt við þessar efnahagsaðgerðir að athuga. Þær sýndu í fyrsta lagi hringlandahátt og í öðru lagi var niðurskurðarhnífnum beitt á svæðum þar sem var ekki nein þensla. Við töldum þetta bara vitleysisúrræði hjá stjórnarflokkunum. En nú segja talsmenn stjórnarflokkanna að þetta hafi bara verið brella. Ef ég heyrði rétt til hv. varaformanns fjárlaganefndar þá sagði hann að þetta hefði ekki seinkað framkvæmdum á Vestfjörðum eða tafið um einn sentimetra. Þetta var því bara brella sem þeir voru að hræða íbúa Vestfjarða með. Ég efast um að þetta hafi haft nokkuð að segja fyrir fólkið á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að gera það að umtalsefni að nýbakaður hv. formaður fjárlaganefndar hefur í umræðunni algerlega hafnað því að átt hafi sér stað mikil misskipting í íslensku þjóðfélagi þrátt fyrir að fyrir þinginu liggi skjöl frá hæstv. forsætisráðherra um að gríðarlega mikil misskipting hafi orðið. Hvaða rök ber hv. varaformaður fjárlaganefndar fram fyrir því? Jú, hann segir að samneyslan hafi aukist. Þetta er alveg rétt hjá varaformanninum, að samneyslan hefur aukist, en samt sem áður hefur misskiptingin aukist. Að því leyti er þessi stjórn sem hér um ræðir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, vinstri stjórn, af því að hún er alltaf að taka til sín hlutfallslega meira af þjóðarkökunni. En hvað gerir hún við peningana? Hún deilir peningunum út ójafnt. Þeir sem standa höllum fæti fá minna og það er hlutfallslega meira tekið af þeim í sköttum. Þetta hafa rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors sýnt svart á hvítu. Hvað gera stjórnarliðar þá? Ekki reyna þeir að breyta þessu. Nei, þeir reyna að rægja fólk sem kemur með staðreyndir, eða jafnvel eins og varaformaður hv. fjárlaganefndar, Einar Oddur Kristjánsson, að snúa út úr og jafnvel að gera lítið úr þeim alþjóðlega samanburði sem Gini-stuðullinn er, sem notaður er úti um allan heim. Hann gaf jafnvel í skyn í umræðunni fyrr í dag að þetta væri einhver Ítali. Það er rétt að það var Ítali sem fann þetta upp og þetta gerir þennan samanburð, sem er notaður út um allan heim. Samanburðurinn er ekkert síðri fyrir það og ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara og hvaða máli það skiptir hverrar þjóðar vísindamaðurinn var sem innleiddi þennan ágæta samanburð. En hann sýnir að íslenskt samfélag er á hraðri leið til aukinnar misskiptingar undir stjórn samvinnuhugsjónaflokksins svokallaða. Ég er á því að sá flokkur verði að hugsa sinn gang.

Annað sem vakti athygli mína í umræðunni var þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um að sumir flokkar hefðu ekki þekkingu á byggðum landsins og virtu ekki félagsleg verðmæti sem þar væru vegna þess að þeir hefðu ekki skilning á landbúnaðarmálum. Mér fundust þessi orð koma algerlega úr hörðustu átt vegna þess að umræddur þingmaður hefur svikið öll loforð gagnvart landsbyggðinni, t.d. með því að svipta byggðirnar hringinn í kringum landið réttinum til að veiða fisk. Mér finnst stórundarlegt að menn skuli saka aðra um slíkt þegar þeir sjálfir hafa æ ofan í æ verið staðnir að svikum.

Að lokum ætla ég að nefna, vegna þess að ég sé að tími minn er að renna út, menntamál. Það sem mér finnst vanta í áherslurnar í þessu fjárlagafrumvarpi er áherslan á iðnmenntun. Það er ekki að sjá að Framsóknarflokkurinn átti sig á því að til þess að fylla álverin af hæfu fólki þarf að mennta fólkið sem á að starfa í þeim. Eflaust mun þörf á fleiri iðnaðarmönnum og ég er á því að það þurfi að efla iðnmenntun. Ef reka á þessa atvinnustefnu, þ.e. að auka þungaiðnaðinn, þá þarf iðnaðarmenn til að sinna þeim störfum en þess sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu að framsóknarmenn geri sér grein fyrir því.

Við í Frjálslynda flokknum leggjum mikla áherslu á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og mættu aðrir flokkar hafa það til eftirbreytni. Ég vek athygli á því að ekki er að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn vilji efla menntun í undirstöðuatvinnugreininni. Ég hef ítrekað bent á að mér finnst undarlegt að hjá þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi skuli ekki vera neinn fiskvinnsluskóli. Ég furða mig sérstaklega á því í ljósi þess að í landinu eru fjórir háskólar sem kenna lögfræði. Það eru til fjármunir í þetta. Í seinni ræðu minni mun ég gera grein fyrir því hvernig þeim fjármunum væri skynsamlega varið með þjóðarhag í huga.