133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:11]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er að heyra á hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni að hann sjái bara ekki hvar hægt er að skera niður og hvar væri hægt að hagræða hjá hinu opinbera. En ég sé marga möguleika. (GÓJ: Hjálpaðu mér.) Já, ég skal hjálpa. Ég hef oft verið reiðubúinn að veita aðstoð.

Ég vil benda hv. þingmanni á að við Íslendingar verjum til að mynda 46% hærri fjármunum í lyfjakostnað en nágrannaþjóðir okkar þótt þjóðin sé yngri hlutfallslega. (GÓJ: Hvað eru það háar fjárhæðir?) Það væri örugglega hægt að ná sparnaði þar ef vilji væri til. Ég skal minna hv. þingmann á að Framsóknarflokkurinn hefur stýrt viðkomandi ráðuneyti í 11 ár og hvað hefur gerst? Kostnaðurinn hefur bara aukist og munurinn er að verða æ meiri. Það mátti sjá það í Kastljóssþætti að hægt væri að borga fyrir öryrkja og sjúklinga ferð á Saga Class til kaupa á lyfjum en samt sem áður kæmi ríkissjóður betur út. Ég held að þetta dæmi væri alveg tilvalið fyrir Framsóknarflokkinn að fara yfir og líta í eigin barm.

En varðandi það að ríkisstjórnin sé vinstri stjórn þá er hún vinstri stjórn að því leyti að hún er alltaf að taka meira og meira af sköttum til sín. Er hún hægri stjórn? Ég veit það ekki. Þetta er furðuleg stjórn sem síðan deilir peningunum út til fárra og tekur hlutfallslega jafnmikið af 1% hæst launaða fólkinu og síðan af öryrkjum og öldruðum. Þetta er stjórn sem þarf að fara frá. Hún sér enga leið til sparnaðar þrátt fyrir að auka og auka ríkisútgjöld. Ég held að þjóðin sé farin að átta sig á því að þeir koma upp í ræðustól og sjá bara enga leið til sparnaðar.