133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég byrja á lyfjunum þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2003, að mig minnir, að Íslendingar verja 14 milljörðum í lyfjakaup. Ef við keyptum lyf á sama verði og nágrannaþjóðirnar greiða fyrir þau væri hægt að ná fram sparnaði upp á 4,6 milljarða. Þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi, en ef menn koma neikvæðir í ræðustól og sjá ekki nokkra leið til sparnaðar þegar verið er að ræða fjárlög og hvernig ná á fram hagræðingu þá er það náttúrlega erfitt. Það hefur reynst mjög erfitt fyrir Framsóknarflokkinn að ná fram sparnaði. Við sjáum það t.d. á því að flokkurinn hefur fjölgað ráðherrum og komið með þá á færibandi inn og út úr ríkisstjórninni og aldrei hugsað um hag almennings eða kostnaðinn við þetta. Þegar gengið er eftir því hvað öll þessi ósköp kosta fást engin svör. Það þarf bara breytt viðhorf og þá ná menn árangri. (GÓJ: Hvað ætlar þingmaðurinn að gera?) Hvað ætlar þingmaðurinn að gera? Ég ætla að komast í stjórn og gefa ykkur frí og stýra þessu þannig að hagur almennings verði hafður í öndvegi en ekki þröngir flokkshagsmunir Framsóknarflokksins. Það munum við örugglega gera.

Ég sé að varaformanni fjárlaganefndar er skemmt en mér finnst að hann ætti að íhuga þá stöðu sem fjárhagur íslenska ríkisins er í. Hann þenst út. Hér er verið að leggja fram fjárlög sem þenjast meira út en það verðlag sem boðað er í þessum fjárlögum. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hafa áhyggjur af því en skella ekki upp úr þegar hér eru lagðar fram mjög góðar tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur látið eiga sig að framkvæma um árabil. Hvað hefur Framsóknarflokkurinn verið lengi í heilbrigðisráðuneytinu? (Gripið fram í.) Ellefu ár?