133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða sem hér fer fram nú er nákvæmlega sú sama og síðustu þrjú ár sem ég hef setið á Alþingi. Stjórnarandstaðan, sem boðaði blaðamannafund á dögunum um að nú mundi stjórnarandstaðan koma samhent til leiks, talar hér út og suður um aðalmál þingsins, fjárlög fyrir árið 2007. Hér kemur hv. þm. Sigurjón Þórðarson og boðar niðurskurð og aðhald. Ég sat hérna áðan og hlustaði á hv. þm. Jón Bjarnason sem þuldi upp langan lista, það vantar 100 milljónir hér og af hverju gerum við ekki betur hér og hér og hér? Hér tala stjórnarandstöðuflokkarnir hvor í sína áttina. Ég óskaði eftir svari við því í andsvari við einn hv. þingmann stjórnarandstöðunnar hvort það væri ekki alveg ljóst að stjórnarandstaðan mundi sameinast um tillögur til fjárlaga fyrir árið 2007. Ég sé að það er ekki hægt. Það er ekki hægt að ná lendingu í því máli vegna þess að annars vegar talar hér hægri maðurinn, Sigurjón Þórðarson, sem vill minnka ríkisútgjöldin og þar af leiðandi væntanlega velta kostnaðarhlutdeildinni að miklu leyti yfir á einstaklingana, minnka samneysluna, eins og hann talaði hér fyrir, og hins vegar Vinstri grænir sem tala hér fyrir stórkostlegum skattahækkunum og auknum útgjöldum til velferðarmála. Hvernig verður þetta samræmanlegt nema þá um græðgina í völdin? Hugsjónirnar munu ekki skipta neinu máli hjá þessu fólki þó að það sé algjörlega á öndverðum meiði í pólitík, annar lengst til hægri og hinn lengst til vinstri. Það skiptir ekki máli. Það á að koma þessari ríkisstjórn frá sem með þessu fjárlagafrumvarpi leggur áherslu á velferðarmál og að gera betur við þá sem minna mega sín. Tölurnar tala skýru máli, sama hvað hv. stjórnarandstaða reynir að snúa út úr því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram.