133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:55]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alvanur því að menn deili á skoðanir mínar um efnahagsmál, deili mjög hart á þær. Ég er hins vegar óvanur því að menn segi á Alþingi að ég tali á óábyrgan hátt um fjármál ríkisins og efnahagsmálin. Andstæðingar mínir í skoðunum hafa ekki svo ég muni eftir notað þau orð.

Ég ætla að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að ég er mjög sammála því að fram fari hlutlaus úttekt kunnáttumanna á þjóðhagslegri þýðingu stóriðju og virkjunarstefnu. Það er mjög nauðsynlegt að slík úttekt fari fram. Ég er að sjálfsögðu með því að styðja allar slíkar fram komnar tillögur. Á því er mikil þörf. Ég ætla þó að þær hafi margsinnis verið gerðar. Þessi umræða hefur staðið yfir frá því á 7. áratugnum. Þá urðu mjög miklar deilur og ég minnist þess þegar fyrst var farið á þessar brautir gagnvart fyrsta álverinu sem var reist í Straumsvík. Þá urðu gríðarlega harkalegar deilur.

Ég hef líka séð úttektir sjálfstæðra hagfræðinga á þessu. Ég hef hins vegar aldrei séð neina gagnrýni sem ég tel marktæka nema það eitt að menn hafa réttilega bent á að þessi ríkisábyrgð geti truflað fjármagnsstreymi í landinu. Ég held að allir ábyrgir menn séu á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að hverfa frá ríkisábyrgðum á lántökum varðandi virkjanir. Ég þekki engan sem reynir að verja það áfram og ég er sannfærður um að það mun gerast í framtíðinni. Ríkisábyrgðirnar verða að hverfa. Það er stóra málið í þessu. (MÁ: Hvað með Kárahnjúkavirkjun?) Þá yrði fjármagnsstreymið frjálst og ekki á annarra vegum en þeirra sem taka ábyrgð á því, þeirra sem eiga peningana.