133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir það rangt af mér að saka hann um óábyrgan málflutning. Já, mér finnst það óábyrgur málflutningur að beina ekki sjónum að geigvænlegum viðskiptahalla og skuldaaukningu þjóðarinnar en einblína aðeins á það sem greitt er út úr ríkissjóði, eins og mér fannst hann gera. Ég hef fylgst mjög vel með þessari umræðu í dag. Ef hann segði okkur frá heimilisbókhaldi sínu, hvað hann keypti marga bíla og hvað hann hefði matinn og hversu oft hann færi til útlanda en gleymdi að segja okkur frá því að þetta var allt tekið að láni, væri það ábyrg umfjöllun? Ég held ekki.

Varðandi þetta að gera hlutlausa úttekt. Hvers vegna studdi hv. þingmaður það ekki þegar við lögðum það til í aðdragandanum að Kárahnjúkavirkjun? Ég hef barist fyrir því árum saman að það yrði gert. Því var alltaf neitað. Að það hafi verið gerðar slíkar úttektir fyrr á tíð, já, það kann að vera. En umræðan var á öðrum forsendum fyrrum. Þá var horft á víðtækari máta til samfélagsins. Þá var verið að virkja fyrir blandaða hagsmuni, fyrir heimili, fyrirtæki og fyrir stóriðju. Menn töldu að slík blanda mundi efla þjóðarhag. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. Aðrir töldu að svo væri ekki. Um þetta voru hatrammar deilur í þjóðfélaginu. Látum það liggja á milli hluta að sinni.

Það sem er hins vegar að gerast núna er að við erum að virkja fyrir eitt fyrirtæki sem tekur geysilega orku til sín og gríðarlega peninga. Þá snýst málið um það eitt hvað þessi aðgerð, þetta fyrirtæki og sú starfsemi sem því tengist, skilar í þjóðarbúið. Ekki bara það. Við þurfum líka að tefla fram valkostunum. Hvað hefði gerst ella? Þar erum við komnir að vöxtunum hans hv. þm. Birkis J. Jónssonar.