133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:04]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti hv. þm. Ögmundur Jónasson ganga ansi langt þegar hann sagði að varaformaður fjárlaganefndar Alþingis talaði með óábyrgum hætti í því andsvari sem hann veitti áðan í ljósi þeirrar staðreyndar að það er stefnumál Vinstri grænna að Kárahnjúkavirkjun eigi að standa sem minnisvarði um heimsku manna um ókomna tíð. Það er búið að semja við fyrirtækið Alcoa sem mun starfrækja álver í Reyðarfirði um afhendingu á orku og mér skilst að það fyrirtæki sé búið að gera skuldbindandi samninga við aðila um útflutning á framleiðslu sinni til fimm ára. Þetta eru framkvæmdir upp á um 250 milljarða og trúlega yrðu íslensk stjórnvöld skaðabótaskyld gagnvart þeim aðilum sem hafa hafið framleiðslu á Reyðarfirði. Við erum hugsanlega að tala um 300 milljarða, sem er rekstur Háskóla Íslands í 50 ár, sem er rekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss í tíu ár, fyrir utan þá staðreynd að um eitt þúsund manns, sem hefðu annars fengið vinnu við álver á Austurlandi og afleidd störf í kringum þau, fengju væntanlega eitthvað lítið að gera.

Þegar hv. þingmaður talar um að menn séu með óábyrgt tal hér ætti hann að líta sér nær. Við hljótum í þessari umræðu að krefja Vinstri græna svara við því hver stefna þeirra er gagnvart Kárahnjúkavirkjun. Ég fullyrði að verið er að stefna íslenskum stöðugleika og stöðu ríkissjóðs í mjög vond mál ef stefnumið Vinstri grænna verða ofan á í þessu máli.

Ég segi það að á komandi mánuðum verðum við gera þjóðinni það ljóst hver stefna Vinstri grænna er í þessu máli. Hvað gerist ef Vinstri grænir fara í ríkisstjórn. Verður hleypt þá af Hálslóni? Hver er stefna Vinstri grænna í málinu? Hér er verið að tala um nokkur hundruð milljarða kr. í hagsmunum fyrir íslenska þjóð.