133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson átelur mig fyrir að hafa gagnrýnt varaformann fjárlaganefndar fyrir það sem ég hef kallað óábyrgan málflutning, fyrir að horfa ekki á skuldastöðu landsmanna, á mesta viðskiptahalla í þjóðarsögunni og nú víkur hv. þingmaður máli sínu austur til Kárahnjúka og heldur áfram að tala um óábyrgan málflutning.

Það sem hefur gerst óábyrgt í þeim efnum er sú eyðilegging og þau spjöll sem verið er að valda á íslenskri náttúru, þau óafturkræfu spjöll sem verið er að valda á íslenskri náttúru. Við höfum allar götur frá því að umræður um þetta efni hófust haldið uppi mjög staðföstum málflutningi á Alþingi um hve misráðið þetta væri á margvíslegum forsendum. (GÓJ: Á að tæma lónið?) Við höfum horft fyrst og fremst til náttúrufarsþáttanna, umhverfisþátta, en einnig til efnahagslegra þátta sem við höfum verið að gera að umræðuefni núna.

Á að tæma lónið, hvað á að gera? er kallað hér utan úr sal. Það er Framsóknarflokkurinn með sinn málflutning. Ég ætla bara að vona eitt. Ég ætla að vona að allir þeir Íslendingar sem harma þau miklu óafturkræfu náttúruspjöll sem þessar framkvæmdir og þessi virkjun fyrir austan veldur muni það í næstu kosningum hver rekur málið áfram af óbilgirni og hörku. Og ekki nóg með það — (Gripið fram í: Engin stefna.) Engin stefna? Hver haldið þið að trúi á svona málflutning. (GÓJ: Á að tæma lónið?) Talið þið sem mest, komið hingað í ræðustól og lýsið ykkar innri hug (Forseti hringir.) til stóriðjustefnunnar, náttúruspjallanna, vegna þess að Framsóknarflokkurinn er ekkert hættur, hann er ekkert hættur. (Forseti hringir.) Næst verða það Landmannalaugar.