133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið athyglisvert eins og jafnan að fylgjast með þessari umræðu. Ég hef lagt eyrun við henni þó að ég hafi ekki verið allan tímann í salnum. Það hefur vakið sérstaka athygli mína hversu stjórnarliðar gera sér mikinn mat úr og reyna að gleðjast yfir einum og sama hlutnum allan tímann. Í raun og veru hafa þeir fyrst og fremst dregið eitt hér fram, sjálfum sér og sinni ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta til ágætis, að það sé batnandi afkoma eða góð afkoma ríkissjóðs og lækkandi skuldir. Það hefur enginn deilt um það, það blasir við og á sér augljósar og eðlilegar skýringar að afkoma ríkissjóðs hefur farið verulega batnandi síðustu árin. Og skárra væri það nú í mestu þenslu- og viðskiptahallaveislu Íslandssögunnar, þegar ríkissjóður hefur gríðarlegar tekjur af umframeyðslu þjóðarbúsins og selur á sama tíma verðmætar þjóðareignir. Það væri nú meiri búskapurinn ef menn gætu þá ekki skilað ríkissjóði með einhverjum afgangi. Vandinn er hins vegar sá að ójafnvægið í hagkerfinu er líka í afkomu hinna einstöku aðila því á sama tíma og ríkissjóður hefur borgað niður skuldir safna sveitarfélögin skuldum, á sama tíma og atvinnulífið og heimilin safna skuldum.

Hver eru nú efnin til þess að vera svona sperrtur og sjálfumglaður eins og stjórnarliðar hafa verið hér þegar við horfum á hrikalega skuldasöfnun þjóðarbúsins, þegar við horfum á að það er flest sem bendir til að við séum að festast í tímabili ójafnvægis, verðbólga liggur utan viðmiðunarmarka Seðlabankans árum saman og spár standast ekki og fjármálaráðuneytið t.d. verður að viðurkenna að þjóðhagsspá sem lögð var til grundvallar fjárlagafrumvarpinu í fyrra, þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sjálfs, það var nú ekki eins og það væri óháð spástofnun, nei, það var fjármálaráðuneytið sjálft sem spáði svo vitlaust að það stendur ekki steinn yfir steini.

Hvernig var þjóðhagsspáin sem kom í byrjun október 2005? Þá var gert ráð fyrir að viðskiptahalli á því ári, sem þá var langt liðið á, yrði 13,3%. Hann endaði í yfir 16%. Gert var ráð fyrir að viðskiptahallinn færi niður á þessu ári, yrði 12,2% eða 12% slétt. Hvar endar hann? Jú, nú er spáin upp á 18,7% af landsframleiðslu eða litla 209 milljarða kr.

Það er alveg rétt að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talar oft um að þetta sé ískyggilegur viðskiptahalli, en eru þá innstæður fyrir gorgeirnum, hv. þingmaður, um hinn glæsta árangur ríkisstjórnarinnar í hagstjórn og efnahagsmálum? Er það svo þegar vantar tvo þriðju úr milljón á hvert mannsbarn í landinu að við eigum fyrir eyðslu okkar og fjárfestingum í útlöndum, 209 milljarða? Það eru 209 sinnum þúsund milljónir króna. Það eru sem sagt tveir þriðju úr milljón á hvert einasta mannsbarn í landinu sem vantar upp á að við eigum fyrir reikningunum. Það væri kannski sök sér ef þetta væri algjörlega einstakt fyrirbæri og bundið við eitt ár en það er ekki þannig. Það er verið að keyra þjóðarbúið áfram á svona skekkjum árum saman. Auðvitað skilar þessi gríðarlegi viðskiptahalli ríkissjóði miklum tekjum, það er augljóst mál. Það er vel þekkt staðreynd að á tímum verðbólgu, uppsveiflu, og á tímum viðskiptahalla streyma miklar tekjur inn í ríkissjóð. En það eru ekki innstæður í raun fyrir þeirri afkomu vegna þess að þetta er umframeyðsla þjóðarbúsins.

Talandi um hina miklu ábyrgð, er það mjög mikil ábyrgð að standa frammi fyrir því að við eyðum langt um efni fram á löngu, löngu árabili og sendum þann reikning á komandi kynslóðir? Því þetta er ávísun á lakari lífskjör og erfiðari greiðslustöðu þjóðarbúsins á komandi árum. Þakka skyldi það þó að ríkissjóður lagaði stöðu sína við þessar aðstæður. Gallinn er hins vegar sá að þegar dæmið er gert upp í heild sinni og afkoma þjóðarbúsins er lögð saman þá hefur sigið svo á ógæfuhliðina hjá öðrum aðilum, öðrum máttarstoðum samfélagsins að heildarútkoman er mjög alvarleg, hún er mjög ískyggileg. Ef við tökum viðskiptahallann á þessu langa tímabili, t.d. hallann árin 2004, 2005 og 2006 og spárnar til ársins 2010, þá erum við farin að tala um viðskiptahalla á innan við áratug sem verður hátt í ein landsframleiðsla. Það er ekkert smáræði. Hvað þýðir það? Það mun örugglega þýða að það styttist í að erlend matsfyrirtæki fari að lækka lánshæfismat Íslands. Það er algerlega óumflýjanlegt ef svo heldur sem horfir. Það mun gerast. Varnaðarorðin í skýrslum þessara aðila undanfarin ár hafa heldur verið að þyngjast að þessu leyti.

Menn eru að vitna hér í skýrslur og samanburði, hv. síðasti ræðumaður, m.a. í gögn frá OECD um stöðu ríkissjóða og það er allt rétt sem þar er sagt. En af hverju t.d. vitnaði þá ekki hv. þm. Bjarni Benediktsson eða hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Birkir Jón Jónsson í töfluna hérna um hreinar erlendar skuldir OECD-ríkja? Hvernig er skuldastaðan að þróast á Íslandi? Við erum komin í 150% af landsframleiðslu í hreinar erlendar skuldir. Við erum komin langt fram úr því OECD-ríki sem er með næstóhagstæðasta stöðu að þessu leyti, Nýja-Sjálandi. Hvað eru 150% af áætlaðri landsframleiðslu á þessu ári? Eigum við að segja að það séu 1.950 milljarðar, frú forseti, það skyldi nú ekki vera? Það tekur nú í að greiða af því og borga af því á komandi árum og hverjir eiga að gera það? Jú, börnin okkar. Það er verið að eyða hér mjög um efni fram og svo segja menn það stóriðjunni til framdráttar að hún standi ekki fyrir nema 30% af þessum viðskiptahalla og það er rétt. En hvað þýðir það þá? Það þýðir að hitt, afgangurinn að mestu leyti, eru ekki fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu eða svokölluðum varanlegum framleiðslutækjum, heldur því miður umframeyðsla. Svona er látið vaða á súðum og þetta kalla menn ábyrgð, þetta kalla stjórnarliðarnir ábyrgð hér og hælast um og vorkenna okkur stjórnarandstæðingum fyrir að vera í stjórnarandstöðu og að við séum að reyna að gera okkur upp einhver efni til að gagnrýna þetta frumvarp. Ég þarf þess ekki. Ég hef árum saman varað við því hvert væri að stefna í þessum efnum og ég held því fram, ég fullyrði það, að það er einstakt ábyrgðarleysi hvernig stjórnvöld standa að verki í þessum efnum, að skuldsetja landið með þessum hrikalega hætti með því að keyra áfram þá vitlausu stefnu sem hér hefur verið keyrð með glórulausum stóriðjufjárfestingum, með rangt skráðu gengi og með vaxtapólitík sem springur í loft upp einhvern daginn ef svo heldur sem horfir. Það er glórulaust.

Látum nú vera ef það sæi til lands og menn væru að sjá að sér. En hvað er boðað? Þrjú ný stór álversverkefni í viðbót á næstu árum. Greiningardeildir banka eru þegar farnar að spá því að þetta muni leiða til þess að Seðlabankinn geti lítið eða ekkert lækkað vexti. Hvað segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson um þá framtíðarsýn að það verði keyrt hérna áfram á 12–14% stýrivöxtum, 2–4% raunvaxtamun milli Íslands og annarra landa, sem þýðir þetta innstreymi fjármagns og þýðir þessa hluti sem við vitum? Með öðrum orðum: Ef teknar verða ákvarðanir t.d. á næsta ári um þó ekki væri nema eina af þessum þremur nýjum álverksmiðjum eða álverkefnum þá er það mat greiningardeilda bankanna að það muni gera út um það að Seðlabankinn geti tekið að lækka vextina, einfaldlega vegna þess að hann verður að bregðast við framtíðarhorfunum og þær verða þá ný veisla, nýtt þenslu- og hágengistímabil með vaxandi viðskiptahalla á nýjan leik o.s.frv.

Að síðustu vil ég svo segja við hv. þm. Birki Jón Jónsson sem ítrekað hefur gert hér í dag ummæli mín um Kárahnjúkastíflu að umtalsefni og ég þakka honum að sjálfsögðu heiðurinn. Hv. þingmaður var að vísu ekki svo lánsamur að vera með í ferðinni og heyra ræðu mína alla en það er rétt að hv. þingmaður hafi bara frá fyrstu hendi hvernig þetta mál er vaxið. Það er þannig vaxið að þingflokkur og stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðu um það samþykkt í lok ágúst að því yrði frestað að setja vatn á Hálslón og það yrði farið í nýtt óháð áhættumat á framkvæmdinni vegna þess að það hrannast upp efasemdir um að það sé verjandi áhætta að hleypa vatni á mannvirkin.

Síðast í Morgunblaðinu í gær er jarðfræðiprófessor að líkja því við ofsaakstur hvernig staðið var að undirbúningi Kárahnjúkastíflu og hugarfarinu við það að það sé þá í lagi að ástunda ofsaakstur svo lengi sem ekki verði slys. (Forseti hringir.) Það var krafa okkar að því yrði frestað að setja vatn á lónið og áhættumatið yrði unnið. Færi svo að það reyndist (Forseti hringir.) óverjandi áhætta yrðu menn (Forseti hringir.) auðvitað að horfast í augu við það. Í því samhengi féllu þessi ummæli.

(Forseti (SAÞ): Forseti biður hv. þingmann að gæta að ræðutíma.)