133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var eitt og annað sem hv. þingmaður fann að stöðu mála og eins og hann reyndar nefndi sjálfur ætti það ekki að koma neinum á óvart sem hann ræddi um. Hann hefur haft áhyggjur af þessum hlutum um nokkurt skeið og út af fyrir sig telja fleiri að viðskiptahallinn sé atriði sem við þurfum að skoða. Hins vegar ganga spár okkar út á það, eins og við höfum reyndar talið um nokkurn tíma, að hann muni ganga til baka og þá einmitt vegna þess að útflutningstekjur muni aukast, álútflutningurinn muni þá vega þar upp á móti.

Ef það væri nú þannig að fram færi nýtt arðsemismat á Kárahnjúkavirkjun og í ljós kæmi að virkjunin væri miklu arðsamari en áður hefur verið talið og það kæmi í ljós að aðstæður væru þær í íslensku efnahagslífi eða einhverjir spáðu því, kannski einhverjar greiningardeildir sem hv. þingmaður er að vísa til, að það væri auðvelt að koma stórum virkjunum og álverum fyrir í hinu íslenska hagkerfi og væri jafnvel nauðsynlegt að byggja fleiri álver og virkja meira til þess að halda uppi atvinnu og til þess að einstaklingarnir geti greitt af þeim skuldum sem þeir hafa, sumir hverjir, tekið á sig að undanförnu til að fjármagna kaup af ýmsu tagi, breytti það einhverju í afstöðu hv. þingmanns til Kárahnjúkavirkjunar eða svipaðra verkefna? Væri þá allt í lagi að virkja, væri þá allt í lagi að byggja stíflur og væri þá allt í lagi að mynda stór uppistöðulón ef staðan væri sú sem ég var að reyna að lýsa áðan?