133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur greinilega ekki hlustað. Ég sagði að við nálguðumst þessa hluti í þeirri röð að fyrst vildum við kanna umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmda. Við erum ekki gegn því að það sé virkjað á Íslandi til einhverra þeirra þarfa sem við teljum að séu skynsamlegar fyrir land og þjóð. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að gera það eftir því sem við t.d. þurfum raforku til almennra þarfa eða almenns iðnaðar og þess vegna í einhverjum tilvikum til stærri fyrirtækja, enda séu þær virkjanir á sjálfbærum grunni reistar og valdi ekki óréttlætanlegum skaða í lífríki og náttúru. Þetta er það sem ég sagði. Ég sagði að ef virkjanirnar yllu umtalsverðum náttúruspjöllum … (Fjmrh.: Þetta er annað svar.) Nei, hæstv. fjármálaráðherra.

Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra snúi ekki út úr og reyni að segja að maður hafi sagt eitthvað annað en maður sagði. Ég sagði nákvæmlega þetta. Við skulum lesa þetta þegar kemur útskrift af þessu. Það á ekki að þurfa að standa í útúrsnúningum af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Ef þær valda óásættanlegum náttúruspjöllum þá erum við á móti þeim, jafnvel þó að þær séu arðsamar, sagði ég, hæstv. fjármálaráðherra.