133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:52]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hendir mann ýmislegt og m.a. það að vera að kallaður til andsvars og standa fyrir stefnu Seðlabankans í peningamálum. Flestu á maður eftir að lenda í. Í átta ár hef ég varað við þeirri pólitík í þessum ræðustól og bent á það að kunnir klassískir hagfræðingar hafi einmitt bent á að fleiri verkefni réðu þessu, þ.e. fyrst og fremst innstreymi peninganna. Til dæmis Ludwig von Mises og fleiri hafa talað um það. Ég hef talað fyrir þessu árum saman, verið fordæmdur af flestum og kannast ekki við að margir hafi komið upp í þennan ræðustól til að hjálpa mér í þeim málflutningi.

Menn verða hins vegar að athuga, þegar þeir tala um viðskiptahallann, viðskiptin við útlönd eða heildarviðskiptin, að þjónustujöfnuðurinn er inni í þeim tölum sem við erum að tala um. En þegar ég segi að það ríki allt of mikil svartsýni hjá fjármálaráðuneytinu þá bendi ég á lærðar ritgerðir, t.d. eftir prófessor Ragnar Árnason sem hafa sýnt fram á að þjóðhagslíkanið er þannig gert að því hættir við að keyra út af, bæði þegar beygjan er upp og þegar beygjan er niður. Það vanmetur tekjurnar í góðærinu og ofmetur tekjurnar þegar þær fara niður. Hagsveiflan er miklu skarpari í reynd, sýnir hann fram á, en líkanið sýnir. Þess vegna er ég svo bjartsýnn á að viðskiptajöfnuðurinn muni lagast miklu fyrr og þjóðfélagið ná eðlilegu heilbrigði miklu fyrr. Þetta hef ég verið að segja og bent á að ég vona sannarlega að tekjur ríkisins verði á næsta ári minni en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Ég segi það af fullri hreinskilni og tala þannig um þetta. Við verðum að átta okkur á því að ríkið hefur ekki verið að safna skuldum. Þess vegna erum við ekki að stela af næstu kynslóð eins og við værum ella. Það eru einstaklingarnir sem eiga skuldirnar og það eru eignir á bak við þetta, gríðarlegar eignir.