133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:56]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vöruskiptahallinn varð 19 millj. kr., það er alveg rétt, en var síðan í ágúst 11 milljarðar kr. Hann var í september, það kom fram í gær, rétt um 8 milljarðar kr. þannig að ferðin er mjög skörp niður, til allrar hamingju.

Ég fullyrði, en það eru ekki allir sammála mér um það, að það besta sem við gætum gert til að hjálpa Seðlabanka, ekki að rífast við hann heldur hjálpa honum út úr þessum ógöngum, væri að ríkið sem á núna 100 milljarða kr. inni hjá Seðlabankanum tæki svona 70 milljarða kr., 1 milljarð dollara, og breytti í gjaldeyrisvarasjóð til að hjálpa þeim til baka. Þeir verða að koma til baka. Þá er betra að eiga smávegis af aurum. Þeir verða að fara til baka.

Hvað ætlum við að gera ef við sitjum uppi með þessa vexti? Þá keyrum við bara þjóðfélagið í strand. Þetta er staðreyndin. Þeir verða að koma sér til baka og fyrir okkur er langbest að hjálpa þeim og hætta að rífast við þá um smátíma, hjálpa þeim til baka.