133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mikið væri gaman ef ríkisstjórnin tæki til við að hjálpa Seðlabankanum, færi að vinna með Seðlabankanum í staðinn fyrir að hún hefur fram undir það síðasta unnið gegn honum. Á það benda erlendir sérfræðingar sem koma og skoða hagstjórnina og hagkerfið. Þeir eru furðu lostnir yfir því að það virðist ekkert samræmi á milli framgöngu stjórnvalda, ríkisstjórnar og opinberra fyrirtækja annars vegar og Seðlabankans hins vegar.

Það var hárrétt sem hv. þm. Jón Bjarnason benti hérna á að það þarf að skoða fleira en ríkissjóð. Hvað með fyrirtæki ríkisins? Skipta þau ekki máli? Hvert er aðalþenslufyrirtæki landsins í dag? Það er Landsvirkjun að 50% í eigu ríkisins.

Varðandi gjaldeyrisvarasjóðinn þá get ég tekið undir það með hv. þingmanni, og ég hef margsagt að skynsamlegt hefði verið að byggja hann upp. Ég varð undrandi þegar Seðlabankinn hætti skipulögðum gjaldeyriskaupum fyrir einu og hálfi ári síðan eða svo. Ég held að það hafi verið misráðið og þetta er alls ekki galin hugmynd sem hv. þingmaður nefnir, að breyta innstæðunum að verulegu leyti í gjaldeyri.