133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:59]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vill láta taka sig alvarlega, sérstaklega í umræðum um svo mikilvægt mál sem fjárlög ársins 2007. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvað hann telji að það hefði kostað að fresta fyllingu Hálslóns um ófyrirséðan tíma. Um þúsund manns sem hefðu unnið við álverið og við afleidd störf hefðu orðið að bíða í einhvern tíma eftir að vera ráðnir til starfa eða jafnvel bara flutt burt af svæðinu. Hvað telur hann að það hefði kostað í ljósi þess að Alcoa hefur skuldbundið sig til að flytja úr landi framleiðslu sína og gert skuldbindandi samninga gagnvart viðskiptaaðilum sínum? Það er ljóst að íslenska ríkið hefði orðið skaðabótaskylt og í ljósi þess að framkvæmdin er svo stór sem raun ber vitni þá tel ég að við værum að tala um milljarða skaðabætur sem Landsvirkjun hefði trúlega þurft að greiða vegna slíkrar frestunar. Ég veit ekki betur en að margir hv. þingmenn Vinstri grænna hafi lýst yfir áhyggjum af stöðu Landsvirkjunar og fjárhagsskuldbindingum hennar og því að þessi framkvæmd sé ekki arðsöm. Hvað hefði þetta þýtt fyrir hið opinbera fyrirtæki sem Landsvirkjun er?

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Steingrími Sigfússyni fyrir að útskýra þau orð sem hann lét falla á Kárahnjúkum fyrir nokkru, þar sem hann lýsti því yfir að þessi framkvæmd bæri vott um heimsku manna og hún ætti að standa. Mér þykir eðlilegt að almenningur hafi gert því skóna að hann væri að taka undir hugmyndir um að þessi virkjun eða þessi stífla ætti að standa sem dómur um heimsku manna, þá væntanlega þeirra sem stóðu að ákvörðuninni hér og fleiri aðila sem hafa unnið að henni. En nú er það sem sagt svo að það eru ekki hugmyndir Vinstri grænna að þetta verði minnisvarði um heimsku manna.