133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svo sem ekkert svarað því nákvæmlega í tölum hvað frestun á því að hefja söfnun í Hálslón hefði kostað, ef við segjum að hún hefði staðið í þrjá mánuði á meðan nýtt og vandað óháð áhættumat var unnið. Hefði það leitt í ljós að ekki væri ástæða til að hafa af því áhyggjur að stíflan stæðist og þær rökstuddu efasemdir sem komið hafa fram hjá ýmsum jarðvísindamönnum um að þarna hafi verið vandað nógu vel til verka, nú síðast í gær frá prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, hefðu sem sagt ekki reynst það alvarlegar að ástæða væri til þess, þá hefði það væntanlega breytt tiltölulega litlu vegna þess að vetrarrennsli inn í lónið frá og með þeim tíma t.d. sem nú er kominn skiptir ekki öllum sköpum. Eins og við sjáum t.d. á því hversu hratt safnaðist í það.

Það hefur að vísu annan verri ókost í för með sér því það eru allir sammála um að eina vitið er að fylla mjög varlega í lónið. Í raun og veru hefði kannski átt að hanna virkjunina frá byrjun miðað við að gera það á þrem til fimm árum. Það hefði verið varfærni. Það hefði verið varlegur akstur en ekki ofsaakstur eins og þessi framkvæmd auðvitað öll er.

Það er búið að margsanna sig að þarna styttu menn sér hrottalega leið í öllum undirbúningsrannsóknum enda unnar að mestu leyti á einu sumri, allt annað en forkönnun. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Það er örugglega rétt, enda sagði ég það í þessari ræðu sem hv. þingmaður heyrði því miður ekki nema örlítið brot úr, að það yrði auðvitað heilmikil skrokkskjóða ef í ljós kæmi að þetta væri ekki réttlætanleg áhætta. Þá mundi þessi stífla standa sem minnismerki um heimsku mannsins, um tegundina homo sapiens sem ætlar að gera sig herra yfir öllu og öllum og þar með talið náttúrunni en er nú kannski ekki alltaf á mjög traustum forsendum í þeim efnum.

Þetta var sem sagt myndlíking, hv. þingmaður, af þessu tagi. Það var að sjálfsögðu ekki verið að vísa til einhverra tiltekinna einstaklinga heldur tegundarinnar og þeirrar herrastöðu (Forseti hringir.) sem hún hefur tilhneigingu til að taka sér í náttúrunni og lífríkinu.