133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir ákveðna þætti í efnahagsmálum og grunnþætti efnahagsmála. Ég vakti athygli á þeim gríðarlega viðskiptahalla og því mikla ójafnvægi sem er í íslensku efnahagslífi og þeim gríðarlega háum vöxtum sem eru í samfélaginu og eru að sliga bæði atvinnulíf og einstaklinga. Stór hluti af þessu er til kominn vegna stóriðjuframkvæmdanna á síðustu árum og afleiðinga þeirra. Þetta hefur ítarlega verið rætt hér. Segja má að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi í rauninni mótast af tvennu á undanförnum árum, annars vegar stóriðjuframkvæmdum, þessum hrikalegu og miklu stóriðjuframkvæmdum, og hins vegar einkavæðingu á almannaþjónustufyrirtækjum.

Ég ætla aðeins að fara inn á nokkur atriði varðandi einkavæðingu á almannaþjónustu því það er nú svo að hægt er að einkavæða burt þjónustuna og láta almenning borga og standa svo uppi með góðan afgang eða góðan rekstur á ríkissjóði, þ.e. færa byrðarnar í auknum mæli yfir á almenning.

Þannig hefur t.d. reynst með Símann. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vöruðum mjög sterklega við því að einkavæða og selja Símann. Við lögðum áherslu á að grunnfjarskiptakerfi Símans er það sem tengir okkur saman sem eina þjóð og með því að beita því gætum við haft áhrif á að jafnræði ríkti í bæði verði og þjónustu í fjarskiptum um allt land. Skoðanakannanir sem gerðar voru á lokaferli á sölu Símans sýndu að þjóðin, mikill meiri hluti almennings eða þeirra sem tók þátt í þeim skoðanakönnunum, var okkur sammála. Yfir 70% í þeim skoðanakönnunum vildu að Síminn yrði ekki seldur.

Hvað hefur síðan komið á daginn? Jú, það var varla liðinn dagur frá því að Síminn var seldur og þar til starfsstöðvum víða um land var lokað og þjónustan skert. Lokað var á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Ísafirði og nú síðast var verið að loka starfsemi á Egilsstöðum. Víðar var lokað.

Ekki er nóg með það, heldur hefur þjónustan líka orðið dýrari. Nýleg skýrsla var gerð hér á vegum að ég held Póst- og fjarskiptastofnunar eða á samstarfsvettvangi nokkurra landa um að taka saman þróun á verði á símkostnaði og var skýrslan birt nýlega. Sú skýrsla sýndi að áður en Síminn var einkavæddur og seldur var þjónustan hér með því ódýrari sem gerðist í Evrópu. En nú, milli áranna 2002 og 2006, á fjórum árum, hefur t.d. símkostnaður á GSM-síma hækkað hér um 40% á þeim tíma og er orðinn langhæstur í þessum samanburðarlöndum. Ástæðan getur ekki verið önnur en sú að fyrirtækið hefur keyrt upp arðsemiskröfuna á þessum rekstri, krafist hærri arðs og hækkað afnotagjöldin, notendagjöldin.

Það má vel vera að menn geti dreymt um að hér á alþéttbýlasta svæðinu geti menn búið til samkeppni á sviði fjarskiptamarkaðar þar sem fyrirtækin geta fleytt rjómann af fjarskiptunum þar sem alþéttbýlast er. En það er alveg jafnklárt líka að úti um land, úti um meginþorra landsins verður aldrei nein samkeppni, þar verður bara spurt hvaða þjónusta verði í boði. Þar hefur síðan reynst að Síminn, sem hefur þessa þjónustu á sinni hendi, hefur ekki skilað því sem vænst var.

25. september sl. var á vef Bæjarins besta greint frá því að Síminn væri búinn að skipta landinu í svæði hvað varðaði bæði þjónustustig og verð á ADSL-tengingum. Íbúar hafa mótmælt þessu. Ég veit að á vegum Snerpu á Ísafirði, sem fór af stað með þetta mál, hefur verið efnt til undirskriftasöfnunar til að mótmæla þessu framferði Símans. En einokunarstaðan, sem verður alltaf einokunarstaða því málin eru þannig, veldur því að í rauninni er ekkert val. Þarna er fjöldi manns, komið var töluvert hátt á annað þúsund manns síðast þegar ég vissi, búinn að skrifa undir þessi mótmæli í yfirlýsingu undirskriftasöfnunarinnar Aftur til fortíðar. Þar segir, með leyfi forseta: „Við undirrituð krefjumst þess að Síminn veiti þá þjónustu sem við borgum fyrir og dragi til baka þá ákvörðun að skipta landinu upp í misdýr gjaldsvæði í skjóli einokunar!“

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur mótmælt þessu líka og hefur minnt á að þetta var það sem var varað við og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sendi frá sér ályktun af þessu tilefni 29. september sl. þar sem þingflokkurinn krefst þess að litið sé á allt landið sem eina heild í þjónustustigi og gjaldtöku í fjarskiptum. Fyrirtækjum í fjarskiptum með markaðsráðandi stöðu verði gert skylt að bjóða viðskiptavinum sínum sama þjónustustig á sama verði um allt land. Í svo stóru og dreifbýlu landi verður aldrei hægt að skapa það samkeppnisumhverfi í fjarskiptum að markaðsöflin ein tryggi að allir sitji þar við sama borð. Stjórnvöld verða því að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja jafnrétti allra landsmanna til þessarar þjónustu.

Ég fékk bréf á dögunum, herra forseti, frá einum íbúa á Norðvesturlandi þar sem hann lýsti samskiptum sínum við Símann. Hann hafði sótt um síma um mánaðamótin júní/júlí og hélt í barnaskap sínum að þá fengi hann símtengingu inn mjög fljótlega. 3. október hafði hann ekki enn fengið tengingu. Eina sem hafði verið gert var að vegurinn hafði verið grafinn upp þannig að hann var ófær heim en ekkert svar var um hvenær þessi þjónusta yrði komin inn.

Okkur er minnisstætt það sem gerðist fyrir norðan þegar ljósleiðari fór í Miðfirði og fjarskiptasamband, vaktstöð siglinga, féll niður frá Vestfjörðum og til Langaness og útvarp og sjónvarp að stórum hluta landsins líka. Þetta er hluti af öryggiskerfinu. Þá var þess einmitt getið í viðtölum við bæði fulltrúa Landhelgisgæslunnar og fleiri að síðan Síminn var einkavæddur væri þetta bara á markaðsgrunni og ef menn vildu tryggja betur þjónustuna þá yrðu menn að kaupa og taka fleiri línur á leigu.

Ég held því að mjög mikilvægt sé, herra forseti, þegar við horfum til þess að nú á grunnnetið að vera til sölu, það hefur verið boðað til sölu, þá held ég að okkur beri skylda til þess að kanna hvort ekki sé rétt að leysa grunnnet fjarskipta aftur inn og geta veitt þjónustu á jafnréttisgrunni um allt land.

Herra forseti. Hægt er að rekja fleiri svona dæmi um afleiðingar einkavæðingarinnar á almannaþjónustu úti um land. Einkavæðing á raforkunni, hvernig hún kemur niður og kemur þá íþyngjandi einmitt á íbúa landsbyggðarinnar þar sem er náttúrlega útilokað að koma upp einhverri virkri samkeppni.

Maður horfir því ekki aðeins á fjárlagagerðina sem slíka heldur hvernig ríkisbúskapurinn er, hvernig stjórnvöld eru að færa greiðslubyrðina með einkavæðingunni yfir á almenning. Það er hluti af því að skerða lífskjör fólks og skerða samkeppnisstöðuna. Ég vildi bara koma þessum eina þætti hér á framfæri sem dæmi um á hvaða vegferð við erum. Það er alveg klárt mál að þessi þjónusta fjarskipta Símans gerir greinilega ekkert annað en að versna og versna og hækka í verði ef marka má þær skýrslur sem unnar hafa verið í þeim efnum.