133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað þingmanninn um að stjórnarandstöðuflokkarnir, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn, munu hafa náið samstarf í grunnmálaflokkum, eins og t.d. í velferðarmálum sem við höfum lagt fram. Það er stefna og markmið — markmið sem eru skilgreind í krónum, hvernig við ætlum að koma til móts við kjör aldraðra og öryrkja sem hafa borið hvað skarðastan hlut frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hv. þingmaður þarf því ekki að hafa áhyggjur af því. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. þm. Gunnar Örlygsson hafi lesið fjárlagafrumvarpið og fylgitölur með því.

Viðskiptahallinn á síðasta ári, árinu 2005, var 161 milljarður kr. Hann hefur verið áætlaður 101 milljarður í forsendum fjárlaga. (Gripið fram í: ... lækka matarverðið?) Á þessu ári stefnir viðskiptahallinn í 209 milljarða kr., var áætlaður tæplega 130 milljarðar og þótti öllum mjög hátt. Stýrivextir Seðlabankans eru komnir í 14% á tímum sem hv. þingmaður kallar góðæri, og vissulega er góðæri á ákveðinn hátt. En þau dæmi sem ég nefni sýna hversu efnahagsstjórnin er slöpp, hversu mikið ójafnvægi er í efnahagsmálum þjóðarinnar og á hve hættulegri braut við erum ef ekki verður snúið af leið þegar í stað. Það verður kannski ekki gert nema með því að skipta um ríkisstjórn, herra forseti.