133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Þegar ég lauk fyrri ræðu minni í dag átti ég þó nokkuð eftir og síðan hafa umræður í dag skapað slíkar aðstæður að óhjákvæmilegt er að taka hér nokkur mál til umræðu og fara yfir. Það hefur verið áberandi í málflutningi hv. þingmanna í stjórnarliðinu að guma mjög af því hve hér er rausnarlega stigið í átt til þess að auka jöfnunaraðgerðir í samfélaginu. Það eru auðvitað svör þeirra við hárbeittri gagnrýni um hve ójöfnuður hefur aukist að undanförnu. Það sorglega við þá umræðu er að það virðist eins og sumir hv. þingmenn trúi því að þarna sé verið að stíga gífurlega stór og mikil skref, að barnabætur, vaxtabætur og skattleysismörk hafi aldrei verið hærri. Miðað við tal sumra hv. þingmanna er hægt að draga þá ályktun.

Hins vegar er hægt að segja um alla þessa liði að þrátt fyrir að stigin séu örlítil skref vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins og þá fyrst og fremst verkalýðshreyfingin náðu að knýja fram örlitlar lagfæringar á þeim, nær enginn þessara liða þeirri stöðu sem var þegar ríkisstjórnin tók við völdum. Í öllum tilfellum hefur ríkisstjórnin byrjað á að skerða þá eða láta þá dragast aftur úr og er nú að stíga skref í rétta átt.

Vegna orða hv. þm. Birkis J. Jónssonar, formanns fjárlaganefndar, um þróun barnabóta, þar sem hann, eftir einhvern lærdóm einhvers staðar fór með slíkan málflutning, er óhjákvæmilegt að fara örlítið yfir málið og reyna að leyfa hv. þingmanni að átta sig á hvað í raun og veru hefur gerst í þeirri þróun.

Þannig er mál með vexti að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur orðið gífurleg skerðing á barnabótum. Bæturnar voru mun hærri að raungildi árið 1995 þegar ríkisstjórnin tók við en í þann liðlega áratug sem hún hefur setið. Þetta er auðvitað allt önnur staðreynd en sú sem kom fram í máli hv. þingmanns. Auk þess sem ótekjutengdar barnabætur voru greiddar að 16 ára aldri barna á árinu 1995 en eru nú einungis greiddar að sjö ára aldri barna. Það er fyrst og fremst minnismerki um svikin loforð framsóknarmanna sem fyrir nokkru lofuðu, eins og alþjóð man eftir, ótekjutengdum barnabótum með öllum börnum að 16 ára aldri.

Á árinu 1995 var hlutur ótekjutengdra barnabóta af heildargreiðslum, sem allir foreldrar barna fengu óháð tekjum, um 56% en var kominn niður í um 20% á árinu 2005. Þó að framsóknarmenn segi í orði kveðnu að fólkið eigi að vera í fyrirrúmi, eins og alþjóð er kunnugt úr kosningabaráttu og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur væntanlega sagt æðioft, þá er staðreyndin samt sú að enginn hefur svikið barnafólkið eins mikið og flokkur hv. þingmanns.

Hver man ekki eftir slagorðinu um barnakortin? Þau fólu í sér að greiða átti ótekjutengdar barnabætur með öllum börnum að 16 ára aldri. Á árinu 2005 var varið um 1 milljarði kr. lægri fjárhæð að raungildi til barnabóta en varið var á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Jafnvel þótt um 2,4 milljörðum kr. hærri fjárhæð verði varið til barnabóta á árunum 2006 og 2007, eins og áformað er, hafa barnabætur engu að síður lækkað verulega að raungildi frá því að núverandi stjórnarflokkar komust til valda árið 1995. Á föstu verðlagi voru útgjöld til barnabóta tæpir 6,5 milljarðar kr. á árinu 1995 en á þessu ári eru útgjöldin tæpir 6 milljarðar kr. Sem hlutfall af landsframleiðslu voru útgjöld til barnabóta um 1% á árinu 1995 en voru komið niður í um 0,5% á árinu 2005. Er þessi samanburður líklega sá raunhæfasti og sýnir hver þróunin hefur verið í þessum efnum.

Ríkisstjórnin hefur, í tengslum við kjarasamninga fyrr á þessu ári, ákveðið að draga nokkuð úr tekjutengingu bóta og skerðingarmörkum þeirra á árinu 2007, en þetta var auðvitað knúið fram af verkalýðshreyfingunni í tengslum við gerð kjarasamninga. Engu að síður er miðað við mjög lágar tekjur hjá þeim sem fá óskertar bætur. Það er varla hægt að kalla þetta barnabætur heldur er miklu nær að tengja þetta við hin lágu laun því að skerðingin byrjar langt undir lágmarkslaunum. Í stað þess að skerðing á barnabótum byrji við 77 þús. kr. mánaðartekjur hjá einstæðu foreldri eins og er nú verður miðað við 92 þús. kr. eftir breytinguna á næsta ári. Hjá hjónum verður miðað við að skerðing á barnabótum byrji við 185 þús kr. mánaðartekjur í stað 155 þús. kr. eins og er nú. Vissulega er þetta skref í rétta átt, knúið fram af verkalýðshreyfingunni. En það er spurning hvort þetta eru slík skref að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður fjárlaganefndar, þurfi að hreykja sér af þeim. Ég hefði haldið að nær hefði verið fyrir hv. þingmann að minnast ekki á barnabæturnar hvað þá að hreykja sér svo mjög eins og hann gerði.

Sama á við um vaxtabæturnar eins og fjallað hefur verið um í dag. Þrátt fyrir þau skref sem verið er að stíga dugar það ekki til að skila því til baka sem skert hefur verið undanfarin ár.

Herra forseti. Það var auðvitað ýmislegt fleira sem ég átti eftir í fyrri ræðu minni en ég sé að tíminn er afar naumur og því verð ég að skera áfram niður úr ræðunni. Ég vil þó að lokum nefna örfá atriði úr fjárlagafrumvarpinu sem vekja sérstaka athygli. Í lok ræðu minnar fyrr dag ræddi ég um að það væri töluverður munur á hvaða meðhöndlun Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík fengju í fjárlagafrumvarpinu. Rökstuðningurinn er fyrst og fremst sá að gerður hafi verið nýr samningur við Háskólann í Reykjavík. Þetta er verulegt umhugsunarefni í því samhengi að háskólarnir í landinu sitja ekki við sama borð, annars vegar hinir opinberu háskólar og hins vegar þeir háskólar sem reknir eru af öðrum aðilum.

Þessi samanburður sýnir okkur að þarna er ekki réttlátlega skipt. Þetta eru háskólar sem báðir tveir hafa verið í miklum vexti og er þess vegna hægt að bera nokkuð vel saman. Þannig er t.d. munurinn að Háskólinn á Akureyri fær aðeins framlög fyrir 85 nýnema meðan Háskólinn í Reykjavík fær fyrir 120. Loks er ekki síður athyglisvert að rannsóknarframlagið til Háskólans á Akureyri er hækkað um 40 millj. kr., ekki til að greiða laun þeirra sem eru að rannsaka heldur vegna húsaleigu í hinu merka rannsóknarhúsi Borgum, húsinu sem sett var í ákveðinn farveg að tilstuðlan menntayfirvalda og nú er verið að bæta hluta af því. Á meðan fær Háskólinn í Reykjavík 65 millj. kr. í rannsóknarframlag vegna þessa nýja samnings.

Herra forseti. Ekki er síður athyglisvert að bæði hjá félagsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu er ótrúlega mikið um að ekki hafi verið lokið samningsgerð vegna samninga sem ráðuneytin hafa gert við t.d. sveitarfélög og ýmis líknarfélög. Það eru auðvitað ekki hægt að bjóða upp á slík vinnubrögð að samningar sem renna út um næstu áramót skuli ekki liggja fyrir um leið fjárlagafrumvarpið er lagt fram. Þetta er algerlega með ólíkindum. Ég tek eftir því að t.d. ýmis verkefni sem sveitarfélögin tóku að sér í tilraunaskyni en hafa síðan verið framlengd með þjónustusamningum eru hluti af þessari mynd hjá báðum ráðuneytunum. Það hlýtur að kalla á sérstakar skýringar af hverju ekki er búið að ganga frá þessu vegna þess að ef ekki á að halda þessum verkefnum áfram þá eru sveitarfélögin komin í þann vanda að eiga eftir að segja upp starfsfólki o.s.frv. Þetta er framkoma sem ekki er líðandi gagnvart þeim aðilum sem taka að sér verkefni fyrir ríkið. Er ástæða til þess að hæstv. fjármálaráðherra, sem mér sýnist vera eini ráðherrann í nágrenni við okkur, ræði við kollega sína og ýti við því að menn gangi betur til verks en þetta, þannig að næst þegar lagt verður fram fjárlagafrumvarp verði allir samningar frágengnir svo menn þurfi ekki að lifa í þeirri óvissu sem hlýtur að fylgja því að hafa slíka samninga lausa.