133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fyrst og fremst um tiltalið frá OECD sem hæstv. ráðherra vefengir að hafi átt sér stað eða hefur efasemdir um. Það var þannig að fljótlega eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gengu í eina sæng um miðjan tíunda áratuginn var byrjað að pumpa peningum inn í Verslunarráð Íslands eins og það hét þá í samstarfsverkefni viðskiptaráðuneytis og Verslunarráðsins um að koma hér á skattaskjóli. Ég held að talað hafi verið um þetta sem aflandssvæði ef ég man rétt. Þó þori ég ekki að fullyrða um það. Á sama tíma var unnið að því innan OECD að koma í veg fyrir skattaleg undirboð á OECD-svæðinu. Ýmis ríki fengu tiltal, t.d. Lúxemborg, og síðan var vísað í umfjöllun um þetta, sem var allítarleg og tíð á þessum tíma, í það sem var að gerast á Ermarsundseyjum og einhvern tíma kom tiltal vegna þessara tilrauna Íslendinga að koma á þessu skattaskjóli, þessum vísi að skattaparadís. Þetta er núna úr sögunni en þetta var tilraun sem gerð var hér í nokkur ár með aðstoð íslenskra skattborgara. Tugir milljóna fóru í þessa vinnu. Ég man eftir einum fjárlögum þar sem var talað um 55 milljónir sem hefðu farið í þetta sameiginlega verkefni ríkisstjórnarinnar og Verslunarráðs Íslands og það kom síðan að lokum að því að tiltal kom frá OECD.