133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Komið er að lokum 1. umr. um fjárlagafrumvarpið. Það sem mér finnst standa eftir er að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því hvernig tekið verður á væntingum um stóriðjuframkvæmdir. Hann hefur ekki tekið nógu alvarlega þá stöðu sem er í grunnforsendum fjárlaga og efnahagslífsins. Gríðarlegur viðskiptahalli, hátt vaxtastig og tekjur ríkissjóðs eru í allt of miklum mæli tengdar viðskiptahallanum sem er aftur á móti hið mikla krabbamein í íslensku hagkerfi. Það er einhvers konar heróínhagvöxtur í sjálfu sér þegar menn eru að nærast á viðskiptahallanum.

Ef maður lítur á umsagnir greiningardeilda bankanna, hvort sem það er Landsbankinn eða KB-banki, þá segja þessir aðilar báðir að ástand efnahagsmála sé mjög viðkvæmt. Það þarf að kólna. Það þarf að skapast hér jafnvægi. Það þarf að skapast grundvöllur fyrir annað atvinnulíf. Það þarf að vera hægt að lækka hér vexti. Það þarf að koma ró á. En verði ekki gefin út yfirlýsing eða tryggt að stopp verði sett á frekari stóriðjuframkvæmdir þá munu væntingar um auknar stóriðjuframkvæmdir koma fram með þeim hætti að forsendur fjárlaga koma ekki til með að standast. Ég spyr enn hæstv. fjármálaráðherra: Gerir ráðherra sér ekki grein fyrir þessari stöðu og er það ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að bregðast við?