133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut ef hæstv. ráðherra vill ekki horfast í augu við þennan veruleika. Reyndar er það svo að bæði greiningardeildum bankanna og fjármálaráðuneytinu ber saman um að verði gefnar væntingar um aukna stóriðju þá muni fjárlagafrumvarpið ekki standast. Ég vitna í greiningardeild KB-banka. Hér segir, með leyfi forseta:

„Stóriðjuframkvæmdir munu halda gengi krónunnar hærra en ella.“ — Og áfram: — „Ef fjárfestar telja öruggt að stóriðjuframkvæmdir verði að veruleika sem nú eru í bígerð má gera ráð fyrir því að þeir munu spila á slíkar væntingar með því að gefa út krónubréf til lengri tíma og veðja þannig á hátt innlent vaxtastig. Jafnframt gætu erlendir aðilar brugðið á það ráð að framlengja þeim bréfum sem nú eru á gjalddaga fram á mitt framkvæmdatímabil þegar fyrirséð er að krónan haldist sterk.“ (Forseti hringir.)

Herra forseti. Það er ábyrgðarhluti ef ríkisstjórnin gerir sér ekki grein fyrir alvöru málsins hvað þetta varðar.