133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:29]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta nú afskaplega athyglisvert hjá hv. þingmanni. Sú framkvæmd sem líklegust væri til að fara af stað, er mest búið að undirbúa og væntanlega stærst af þeim sem eru á teikniborðinu, er stækkun álversins í Straumsvík, Alcan. Fyrir liggur yfirlýsing hjá bæjarstjóranum í Hafnarfirði, Lúðvík Geirssyni að farið verði í atkvæðagreiðslu um það hvort stækka eigi álverið eða ekki Það veit út af fyrir sig enginn hver yrði niðurstaðan í þeirri atkvæðagreiðslu. En fulltrúi flokks hv. þm. Jóns Bjarnasonar í bæjarstjórninni er á móti þessu álveri og flokkurinn hefur verið að beita sér gegn því. En af orðum hans hér má skilja að hann telur að flokkurinn muni ekki hafa árangur sem erfiði í þeirri atkvæðagreiðslu sem fer fram i Hafnarfirði. (JBjarn: Nú er …)