133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:30]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra minntist á mál sem við hv. þingmenn, ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, nefndum varðandi samninginn sem búið er að gera vegna byggingar tónlistarhúss við höfnina. Mér fannst hæstv. ráðherra að einhverju leyti misskilja orð okkar en ég held að það sé eðlilegt að hæstv. ráðherra svari því hér og nú hvort hann sé ekki sammála okkur um það að eðlilegt sé að samningur sem — ja, menn hafa heyrt fleygt tölunni um 9 milljarða fjárskuldbindingu inn í framtíðina — hljóði upp á svo háa tölu fái hér stimplun á einhvern hátt þannig að bara komi í ljós hvort ekki sé almennur vilji hv. þingmanna til að gangast við þessari fjárskuldbindingu en að ekki sé verið að pukrast með þetta hér einhvers staðar á bak við. Það er eðlilegt að þetta sé lagt hér fyrir vegna þess að það hlýtur að teljast óeðlilegt að búið sé að gera slíka fjárskuldbindingu inn í framtíðina án þess að nokkurn tíma hafi verið um hana fjallað í þingsölum.

Herra forseti. Ég ræddi um það að meiri hluti fjárlaganefndar virkaði oft á mig eins og stimpill fyrir ríkisstjórnina. Það er kannski ósanngjörn gagnrýni, eins og hæstv. ráðherra segir, á meiri hlutann vegna þess að meiri hlutinn sé bundinn af alls konar samþykktum í þingflokkum sínum, m.a. af fjárlagafrumvarpinu. Það sem ég á við er m.a. að þegar það liggur fyrir í fjárlaganefnd, vegna upplýsinga sem þangað hafa komið, að ákveðnar stofnanir geti ekki veitt þá þjónustu sem þeim er ætlað samkvæmt lögum vegna þess t.d. að skuldahali þeirra er slíkur að fjárveitingar muni ekki duga fyrir rekstrinum á næsta ári leggur meiri hluti fjárlaganefndar samt fram tillögur sem koma ekki til móts við það annaðhvort að skerða þjónustu stofnunarinnar eða veita henni fjármuni sem duga til rekstrarins.

Þetta kalli ég að meiri hlutinn hagi sér eins og stimpill fyrir ríkisstjórnina.