133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Ég held að það sé eflaust rétt hjá hv. þingmanni að samningurinn sem slíkur hefur ekki verið kynntur en hins vegar hefur fjárskuldbindingin sem í samningnum felst verið kynnt. Ég held að lánasamningar sem liggja að baki 7. gr. heimild til lántöku séu heldur ekki almennt kynntir í fjárlaganefndinni þannig að þarna á milli virðist fullt samræmi.

Ég get svo sem alveg hugsað mér að varðandi stærri mál eins og þessi séu viðhöfð einhver önnur vinnubrögð en að þau séu í 6. gr. Það er alveg hugsanlegt en þau vinnubrögð hafa ekki verið tekin upp enn þá og niðurstaða þessa máls var í fullu samræmi við það hvernig slík mál hafa verið unnin áður. Síðan verðum við bara að sjá hvernig við viljum hafa framhaldið.