133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stóriðjustefna og virkjanaleyfi.

[15:09]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum fengið til þings nýjan iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem hefur getið sér gott orð í störfum á öðrum vettvangi, Bifröst og Seðlabankanum, og er mikilvægt fyrir okkur að kynnast viðhorfum hins nýja ráðherra.

Það er óhætt að segja að staðfestan verður ekki hinum nýja formanni Framsóknarflokksins að falli, slíkur hefur hringlandahátturinn verið í yfirlýsingum ráðherrans á fyrstu vikum í embætti. Þannig er ríkisstjórnin ekki að fylgja fram neinni stóriðjustefnu aðra vikuna en þvert á móti hina vikuna tilbúin að reisa álver í hverjum fjórðungi. Á fimmtudaginn stóð ekki til að virkja í Brennisteinsfjöllum, Kerlingarfjöllum eða Torfajökli en um helgina hét það að svo yrði ekki á næstunni.

Ég held að það sé mikilvægt að hæstv. iðnaðarráðherra geri upp hug sinn í þessum grundvallaratriðum sem varða ráðuneyti hans og geri okkur grein fyrir því hvort ríkisstjórnin fylgi stóriðjustefnu og ef ekki, hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að afnumin verði sérréttindi og ívilnanir fyrir stóriðju umfram annað atvinnulíf í landinu.

Í öðru lagi þarf hæstv. ráðherra að greina frá því hvort hann telji til greina koma að úthluta einhverjum virkjanaleyfum á þessum vetri fram að næstu kosningum og þá hvaða leyfum, eða hvort formaður Framsóknarflokksins hafi sannfæringu fyrir því að einhver þau svæði séu á landinu, sem sótt hefur verið um að rannsaka virkjunarkosti í eða virkja á, sem alls ekki eigi að úthluta og komi ekki til álita að auglýsa hvað sem líður niðurstöðum auðlindanefndar.