133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stóriðjustefna og virkjanaleyfi.

[15:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær fyrirspurnir sem hafa komið fram. Það sem ég hef sagt um þetta mál er í raun fjarskalega skýrt. Hins vegar er auðvelt ef menn vilja að misskilja það, rangfæra og leggja það út á annan veg en sagt var.

Það sem ég hef sagt er að sett voru ný lög árið 2003 sem breyttu stjórnsýslu á sviði raforku- og orkumála. Fram til þess tíma, um áratuga skeið, voru íslensk stjórnvöld virk í því að leita að erlendum samstarfsaðilum til þess að standa fyrir stóriðju og virkjunum þótt íslenskir aðilar sæju um hið síðara. Þeirri stjórnsýslu hefur verið breytt.

Nú er hlutverk iðnaðarráðuneytis að veita fyrirgreiðslu, aðstoð og upplýsingar en ekki síður aðhald og eftirlit. Ætlast er til að menn sýni vönduð, fagleg, fræðileg og gegnsæ vinnubrögð og er ekki til þess ætlast að iðnaðarráðherra láti persónulegar eða pólitískar skoðanir sínar á einstökum verkefnum ráða úrslitum heldur fari hann eftir því áliti sem komið hefur frá til þess bærum stofnunum til ráðuneytisins. (Gripið fram í.)

Stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna er hins vegar annað mál. Ég var að tala um stjórnsýsluna og aðild stjórnsýslustofnana og ráðuneyta að þessum málum.

Í annarri spurningu fyrirspyrjanda kemur fram mjög alvarlegur misskilningur. Hann talar um virkjanaleyfi. Það sem við höfum verið að tala um er rannsóknarleyfi og síðan höfum við á síðasta sumri lýst því yfir að stefnan sé að leggja af sérréttindi einstakra fyrirtækja.