133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stóriðjustefna og virkjanaleyfi.

[15:13]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Heyr á endemi. Ráðherra og pólitískar skoðanir hans í virkjunarmálum eiga ekki að ráða úrslitum um afgreiðslu mála. Í þessum sal, virðulegur ráðherra, höfum við pólitíska afstöðu og við tökum pólitískar ákvarðanir um grundvallaratriði eins og náttúruvernd og virkjanir í landinu.

Í fyrirspurnatíma er beint tveimur fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og ég bið um að þeim sé svarað. Við skulum taka þá fyrri núna og seinni á eftir. Fylgir ríkisstjórnin stóriðjustefnu eða er hæstv. iðnaðarráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að við afnemum sérréttindi og sérstakar ívilnanir fyrir stóriðju umfram annað atvinnulíf í landinu þannig að annað atvinnulíf á Íslandi geti keppt við stóriðjuna á jafnréttisgrundvelli eða telur hæstv. iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra að íslenskt atvinnulíf sé svo vanmegnugt á árinu 2006 að ríkisvaldið þurfi með sérstökum hætti að beita sér fyrir niðurgreiðslum, ríkisábyrgðum og lágu raforkuverði til að hlutast til um að halda atvinnulífinu gangandi?