133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

Stóriðjustefna og virkjanaleyfi.

[15:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef greinilega tekið of langan tíma í fyrri hlutann í fyrra svari. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að það er munur á virkjanaleyfum og rannsóknarleyfum. Það sem ég hef verið að tala um eru rannsóknarleyfi. Það eru ekki ný virkjanaleyfi sem eru alveg fram undan. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að einstök stórfyrirtæki njóti sérstakra kjara í íslensku viðskiptaumhverfi. Það var þvert á móti fjallað um það á ríkisstjórnarfundi í sumar að svo yrði ekki.

Hins vegar liggur fyrir að það er stefna ríkisstjórnarinnar að efla hér og örva þekkingarsamfélag þar sem smá og meðalstór fyrirtæki gegna forustuhlutverkum með góðri menntun starfsmanna og góðum lífstækifærum fyrir starfsliðið og fyrir þjóðina. Þróun iðnaðar- og orkumála er aðeins hluti af þessari heild.