133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

Aðgerðir til að jafna flutningskostnað.

[15:18]
Hlusta

Árni Steinar Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Á árinu 2002 voru uppi hér í þinginu miklar umræður um mikinn kostnað vegna flutninga á landsbyggðinni, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga og ekki síst verslunina. Hæstv. iðnaðarráðherra þess tíma, Valgerður Sverrisdóttir, lét útbúa skýrslu um málið og niðurstöður hennar, eða hugmyndir öllu heldur, voru þær að framleiðendur og verslanir á landsbyggðinni ættu möguleika á að framvísa nótum til endurgreiðslu og þar með væri flutningakerfið til landsbyggðarinnar styrkt.

Þetta var eitt helsta kosningamál framsóknarmanna úti um landsbyggðina fyrir síðustu kosningar. Fór þar í broddi fylkingar fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðherra byggðamála, Valgerður Sverrisdóttir.

Ekkert hefur bólað á aðgerðum og því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra hvort til standi, nú þegar örfáir mánuðir eru eftir af þessu kjörtímabili, að gera eitthvað í anda skýrslunnar, koma með tillögur og framkvæma þær í anda skýrslunnar. Sá tími sem liðinn er frá síðustu kosningum hefur ekki verið glæsilegur fyrir framleiðendur og einstaklinga og verslun á landsbyggðinni, aðallega vegna þess að um mikinn flutningskostnaðarauka er að ræða í langflestum tilvikum. Auk þess leggst það ofan á að vegakerfið er allt orðið miklu erfiðara vegna vaxandi þungaflutninga sem gerir flutningsfyrirtækjum og einstaklingum sem eru að flytja vöru og þjónustu á markað miklu erfiðara um vik en þó var þegar þessi umræða var uppi í þinginu.

Ég vil, virðulegur forseti, spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra einu sinni enn: Hyggst núverandi ríkisstjórn koma þeim tillögum sem voru í skýrslunni frá 2003 í framkvæmd áður en núverandi kjörtímabil rennur út?