133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í Fréttablaðinu síðasta föstudag er viðtal við Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hann segir svo komið að tilteknar aðgerðir séu ekki lengur framkvæmdar innan veggja spítalanna, ýmsar sértækar aðgerðir séu nær eingöngu framkvæmdar nú á einkastofnunum.

Hann segir orðrétt, með leyfi forseta, í þessu viðtali:

„Það er ekki heppilegt að ákveðin þjónusta hverfi algjörlega út af spítölunum eins og hefur gerst. Spítalinn er háskólastofnun sem gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki við að samtvinna þjálfun starfsfólks og heilbrigðisþjónustu. Að því leytinu er það óeðlilegt að spítalinn hafi ekki aðstöðu til þess að byggja upp þekkingu við vissar aðgerðir sem aðeins er farið að bjóða upp á utan spítala.“

Þetta voru orð Jóhannesar M. Gunnarssonar í Fréttablaðinu. Í Fréttablaðinu er einnig viðtal við Siv Friðleifsdóttur, hæstv. heilbrigðisráðherra, þar sem hún segist vera alfarið á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Fréttamaður Fréttablaðsins hváir við þessu og bendir réttilega á að fram hafi komið frumvarp sem sé nú í farvatninu og feli í sér styrkingu heimilda til aðkomu einkafélaga að heilbrigðisþjónustunni.

Hæstv. forseti. Þarna stangast á orð og athafnir. Hver er raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Ég beini þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra.