133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta svar kom mér sannast sagna mjög á óvart. Hér var lýst stefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum. (Gripið fram í: Nei, nei.) Fyrir nokkrum árum vildi Sjálfstæðisflokkurinn láta sjúklinginn borga að nánast öllu leyti, eða að miklu leyti. (Gripið fram í.) Síðan var dregið í land, ég skal sýna ykkur bæklinga, þið verðið að kannast við eigin orð og athafnir. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Síðan var dregið í land og sagt að skattgreiðandinn ætti að borga fyrir þjónustuna, það væri aðeins framkvæmdin sem ætti að fara á markað.

Nú er þessari stefnu líka lýst af hálfu Framsóknarflokksins. Einkavæðing í mínum huga snýst ekki bara um greiðsluna heldur einnig um framkvæmdina, hvort eigi að setja heilbrigðisþjónustuna út á markaðinn og gera hana eins og hverja aðra atvinnustarfsemi sem skapar eigendum sínum hagnað. Um þetta snýst slagurinn. Nú eru forsvarsmenn háskólasjúkrahússins að vara við þessari þróun vegna þess að hún á sér stað.

Ég vil að fram komi að heilbrigðisráðherrann talar hér í takt við hæstv. forsætisráðherra, sem kemur mér á óvart. Sem kemur á óvart vegna þess að áherslurnar hafa verið ólíkar eða okkur talin trú um það. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði hér við stefnuumræðuna um daginn að í farvatninu væri frumvarp sem greiddi götu einkarekstursins innan heilbrigðisþjónustunnar, styrkti einkareksturinn. (Forseti hringir.) Nú tekur ráðherra Framsóknarflokksins undir þessi sjónarmið. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli á að það er einhver villa hér í tölvukerfi þannig að hv. þingmaður hefur fengið mun meiri tíma en hann átti í rauninni rétt á.)

(ÖJ: Þakka þér fyrir.)