133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

3. fsp.

[15:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra ætti að eiga orðastað við Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, um nákvæmlega þetta efni. Hann segir að veigamikil þjónusta hafi verið tekin út af sjúkrahúsinu og færð í einkarekstur. Er þetta ekki einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar? (Gripið fram í.) Út í einkarekstur.

Hæstv. forsætisráðherra segir hér í ræðu, með leyfi forseta:

„Stefnt er að því að leggja fram á þessu löggjafarþingi frumvarp til nýrra laga um heilbrigðisþjónustu þar sem mælt er með skýrum hætti fyrir um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis um leið og heimildir heilbrigðisyfirvalda til að fela öðrum aðilum með samningum að annast heilbrigðisþjónustu eru styrktar.“

Sem sagt einkaaðilum, að færa þessa starfsemi til einkaaðila. Það er kallað einkavæðing. Síðan er það önnur umræða hver það er sem greiðir fyrir þjónustuna, hvort það er sjúklingurinn sem borgar sitt beint, sem reyndar er farið að tíðkast í ríkari mæli (Forseti hringir.) en áður var, eða hvort það er skattgreiðandinn. (Forseti hringir.) Það er önnur umræða.