133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

3. fsp.

[15:32]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég veit nú ekki alveg á hvaða plánetu hv. þingmaður er hér, Ögmundur Jónasson. Ég er búin að reyna að útskýra þetta, ég ætla að reyna að gera það einu sinni enn.

Einkavæðing og einkarekstur er ekki það sama. Einkavæðing er þegar sjúklingurinn borgar meira eða minna sjálfur eins og á sér stað í Bandaríkjunum. Einkarekstur er þegar við kjósum að láta ákveðna þjónustu fara á markað þannig að ríkið borgar með þjónustusamningum (ÖJ: Ég sagði …) til viðkomandi aðila. Þú þarft víst, hv. þingmaður, á kennslustund að halda í þessu af því að þú hamrar á því, (Gripið fram í.) virðulegur þingmaður, að Framsóknarflokkurinn styðji einkavæðingu, það er alls ekki þannig.

(Forseti (SP): Ég ætla að biðja þingmenn um að vera ekki að kalla fram í.)

Við teljum eðlilegt að skoða einkarekstur þar sem það á við. En við viljum að hér sé kerfi jafnaðar í heilbrigðisþjónustu og þess vegna styðjum við það að ríkið standi almennt að henni en ef einkareksturinn getur tekið ákveðna þætti og þjónustað okkur (Forseti hringir.) þá segjum við já við því og gerum þjónustusamning og það eru fjölmargir slíkir samningar til og það (Forseti hringir.) er ekki einkavæðing.