133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

4. fsp.

[15:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við höfum gripið til ýmissa úrræða gagnvart þessum hópi upp á síðkastið og hv. þingmenn hafa tekið eftir því að það er nýbúið að kynna viðamikla aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum barna með sérstaka áherslu á geðheilbrigði barna sem eru haldin ofvirkni eða athyglisbresti. Þar kynntum við nýlega að við munum fara í framkvæmdir við viðbyggingu við barna- og unglingageðdeildina á LSH. Við munum styrkja miðstöð Heilsuverndar barna þannig að þar fari fram greiningar á vægustu tilfellunum sem léttir þá á þeim biðlista sem núna er á barna- og unglingageðdeildinni á Landspítalanum og við munum líka styrkja heilsugæsluna með svigrúmi til að ráða sálfræðinga þannig að það sé hægt að sinna þessum börnum betur á heilsugæslustöðvunum, þ.e. í nærumhverfi þeirra.

Í morgun var verið að lýsa búsetuúrræðum fyrir geðfatlaða, eins og fram kom. Þar höfum við verið með of stofnanamiðaða þjónustu hin seinni ár en erum núna að byggja upp úrræði í samfélaginu þannig að geðfatlaðir geta þá farið úr þeirri stofnanamiðuðu þjónustu sem hefur verið í spítalaumhverfinu og út í sambýli og íbúðir sem eru meira í ætt við hefðbundna búsetu. Þar er líka lögð mikil áhersla á þjónustu.

Ég vil líka nefna að við erum að ráða inn í ráðuneytið, og það verður kynnt betur á morgun, geðlækni í hlutastarf til að styrkja starf ráðuneytisins í þessum málaflokki og viðkomandi geðlæknir mun einmitt aðstoða okkur í því sem upp á vantar varðandi úrbætur í þessum málaflokki en það er margt sem er eftir.