133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

4. fsp.

[15:40]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort hún ætlaði að beita sér í Fjölmenntarmálinu. Ég óska eftir því að hún svari því hér á eftir í næsta ræðutíma eða næsta svari.

Það er verið að tala um stefnumótun í málefnum barna. Það er gott, það er fínt. En engu að síður eru mjög mörg börn sem bíða og biðin er yfir eitt ár hjá BUGL. Það eru líka ýmsar nýjar áherslur í geðheilbrigðismálum sem menn hafa verið að beita sér fyrir, þeir sem eru að nota þjónustuna, svo sem bati og valdefling sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir og réttur fólks til að ákveða sjálft hvaða þjónustu það fær.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er hún að gera í þeim efnum í stefnumótuninni? Það er greinilega engin heildarstefnumótun í gangi. Það er verið að tala mikið en framkvæmdirnar til að bæta þjónustuna eru minni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hún að gera í sambandi við Fjölmenntarmálið? Hvernig ætlar hún að tryggja styttri bið fyrir börn sem þurfa að bíða á yfir annað ár o.s.frv.?