133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

4. fsp.

[15:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er heilmikil stefnumótun sem fer fram á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Það hafa verið unnar skýrslur og sú nýjasta er frá Anders Milton og þegar hún var í höfn þá komum við með þessa stefnumótun gagnvart börnunum sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Sú stefnumótun er byggð á öllum þeim skýrslum sem hafa verið gerðar hingað til þannig að við tókum það úr þeim sem við töldum vera mikilvægast að fara í og erum að hrinda því í framkvæmd. Ef þetta er ekki stefnumótun veit ég ekki hvað er stefnumótun.

Hér er spurt sérstaklega um biðlistana á BUGL eða það var dregið fram. Úrræði okkar sem við kynntum um daginn eru einmitt til þess fallin að stytta biðlistana á BUGL. Það kom fram þegar við kynntum þá stefnumótun að meira að segja sérfræðingarnir á BUGL, sem stundum hafa nú efast um að það tækist að höggva niður þessa biðlista, staðfestu að ef allir mundu vinna saman að þessari stefnumótun eins og við höfum lagt hana fram með því fjármagni sem við leggjum fram í fjárlögum yfirstandandi árs og næsta árs þá mun að öllum líkindum takast að eyða biðlistunum (Forseti hringir.) á næsta ári.