133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[15:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þessi umræða getur farið hér fram. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að Alþingi taki þetta mál til umræðu og taki það alvarlega og föstum tökum. Um er að ræða einhver alvarlegustu tilvik að því er virðist, misbeiting opinbers valds, sem við höfum lengi staðið frammi fyrir og um leið einhver grófustu mannréttindabrot og brot á friðhelgi einstaklinga sem saga lýðveldistímans geymir.

Með stuttu millibili hafa tveir íslenskir fræðimenn fjallað með mjög athyglisverðum hætti um símhlerana- og njósnastarfsemi stjórnvalda allt frá 3. og 4. áratug síðustu aldar, en þó einkum frá því um miðbik aldarinnar og allt fram á þennan dag eða a.m.k. til loka kaldastríðstímans svonefnda, þ.e. allt til 1990 eða svo. Þetta eru þeir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur í erindi á söguþingi 21. maí sl. og prófessor Þór Whitehead í tímaritsgrein nú í haust. Í báðum tilvikum er dregið fram að stjórnvöld stunduðu umfangsmiklar pólitískar símhleranir og upplýsingasöfnun á pólitískum grunni. Það virðist sem sagt orðið staðfest, þannig að hafið er yfir vafa að einstaklingar, samtök fólks, hópar manna, fjölmiðlar, friðarhreyfingar, stéttarfélög og einstaklingar sem bundnir voru í slíkum samtökum máttu sæta því að friðhelgi einkalífs þeirra væri rofin, mannréttindi brotin á þeim, um þá njósnað af hálfu stjórnvalda og fyrirmælin gefin af pólitískum andstæðingum.

Ef símhleranirnar eru teknar fyrst þá hefur áðurnefndur sagnfræðingur fundið sex dæmi um þær á árunum 1949–1968. Í öll skiptin eru hleraðir símar hjá alþingismönnum, heimasímar allt upp í fimm alþingismanna í einu. Í eitt skiptið eru 16 heimasímar hleraðir, friðhelgi 16 heimila í landinu rofin. Tilefnin eru í sumum tilvikum ekki merkilegri en svo að verið er að koma heim með vondan samning í landhelgismálum við Breta 1961 eða þá að varaforseti Bandaríkjanna er að koma í heimsókn, eins og átti við 1963. Stöldrum aðeins við þetta.

Það átti að fara að taka hér á Alþingi til umfjöllunar umdeildan landhelgissamning. 14 símar eru hleraðir af því tilefni, þar á meðal hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún, hjá Alþýðusambandi Íslands. Það er hleraður heimasími hjá alþingismanni samkvæmt tillögu frá ráðherra í ríkisstjórn sem ætlar síðan að leggja samninginn fyrir á Alþingi og þar á þingmaðurinn að skiptast á skoðunum um hann.

1963 kemur varaforseti Bandaríkjanna, Lyndon B. Johnson, í heimsókn. Samtök hernámsandstæðinga skrifa lögreglustjóra bréf og tilkynna um mótmælafund og þau hafi áhuga á að koma orðsendingu til varaforsetans. Í bréfinu er lögð sérstök áhersla á að samtökin leggi höfuðáherslu á að atburðurinn fari fram með fyllstu kurteisi og í friðsemd, eins og það er orðað. Það er ekki meira laumuspil en svo á ferð. En dómsmálaráðuneytið skrifar sakadómara og biður um heimild til handa lögreglu að hlera sex símanúmer engu að síður, hjá fjölmiðli, dagblaðinu Þjóðviljanum, hjá Sósíalistaflokknum, hjá Samtökum hernámsandstæðinga sem þó höfðu skrifað lögreglunni, beðið um samvinnu, sótt um leyfi fyrir mótmælaaðgerðum sínum og heitið því að þær færu friðsamlega fram. Og það er beðið um heimild til að hlera heimasíma tveggja einstaklinga. Annar þeirra er alþingismaður, pólitískur andstæðingur ráðherrans sem biður um heimildirnar.

Ef við stöldrum aðeins við hina hreinu leyniþjónustustarfsemi, eftirgrennslana- eða öryggisþjónustustarfsemi eða hvað við viljum kalla þetta, þá virðist mér það alvarlegasta ekki endilega vera að stjórnvöld komi þessari starfsemi á með leynd að því er ég best veit, t.d. án þess að utanríkis- eða allsherjarnefndir Alþingis hafi nokkru sinni verið settar inn í þau mál. Þessi starfsemi var án nokkurrar lagastoðar eða heimildar í fjárlögum. Starfsemin var dulbúin eða falin hjá útlendingaeftirliti og lögreglu og fleira mætti nefna sem orkar mjög tvímælis eða er ósköp einfaldlega hrein lögleysa. Það langalvarlegasta er að þessi starfsemi var pólitísk, nánast algerlega flokkspólitísk. Það var kerfisbundið fylgst með fólki með tilteknar stjórnmálaskoðanir og hugsanir. Á því voru gróflega brotin mannréttindi samkvæmt fyrirmælum pólitískra andstæðinga. Því var mismunað á vinnumarkaði og upplýsingum um einkahagi þess nokkuð örugglega komið í hendur erlendra leyniþjónustuaðila. Með öðrum orðum, dómsmálaráðuneytinu, lögreglunni og opinberu fé var misbeitt pólitískt. Á mannamáli sagt stóð Sjálfstæðisflokkurinn og að því er virðist að hluta til einnig Framsóknarflokkurinn og valdir aðilar í Alþýðuflokknum fyrir stórfelldum símhlerunum og upplýsingasöfnun á pólitískum grunni. Mannréttindi voru gróflega brotin á vinstri mönnum, friðarsinnum og verkalýðssinnum, á stjórnmálaandstæðingum hægri manna. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að nokkurn tíma hafi raunveruleg ástæða verið til þess að fara út í þessar hleranir og væri þó ósvarað spurningunni hvort slíkt væri eftir sem áður yfir höfuð réttlætanlegt. Hér var sem sagt stunduð pólitísk vöktun, pólitískt eftirlit, pólitískar njósnir. „Politisk övervakning“ heitir það á norsku. Það er hugtakið sem þar er notað yfir mjög sambærilegan hlut og virðist geta átt vel við hér.

Það er góðra gjalda vert sem gert var hér á Alþingi síðasta vor að setja nefnd, eins og þar segir í ályktun Alþingis frá 3. júní, í að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim. Það er góðra gjalda vert. Sömuleiðis að styrkja lagastoð þeirrar nefndar til að fá aðgang að gögnum. En það er öllum ljóst að þar er aðeins um mjög afmarkaðan þátt málsins að ræða. Skjölin sem til eru og aðgangur fræðimanna að þeim breytir engu um að Alþingi verður að takast á við það hvað menn ætla að gera vegna málsins í heild sinni, vegna gjörningsins, vegna aðgerðarinnar sem slíkrar, vegna þeirra lagalegu, pólitísku og siðferðilegu álitamála sem snúa að meðferð gagnanna sem slíkra, hvernig þeim var safnað og hver vinnubrögðin voru.

Þessi umræða getur að mínu mati aðeins orðið upphafið að því að Alþingi takist á herðar ábyrgðina á að upplýsa þessi mál til fulls og gera upp þennan dapurlega kafla í okkar sögu. Það hlýtur að koma til skoðunar að við förum hér svipaða leið og í Noregi, t.d. að sett verði á fót opinber rannsóknarnefnd sem rannsaki málið í heild, rannsaki atburðina og aðferðirnar sem notaðar voru. Norska nefndin, Lund-nefndin svokallaða, stóð fyrir sjálfstæðum rannsóknum á málinu, á þeim aðferðum sem beitt var o.s.frv. Markmiðið hlýtur að vera að sömu hlutir endurtaki sig aldrei hér á landi. Spurningin um eftirlit Alþingis eða um vel umbúið þverpólitískt eftirlit af einhverju tagi hlýtur að koma upp í framhaldi af þessum málum öllum saman.

Spurningarnar sem vakna eru vissulega margar og ég held að ég snúi mér að þeim átta spurningum sem ég valdi úr og sendi hæstv. dómsmálaráðherra og ber hér upp við hann. Ég mun skjóta inn röksemdum fyrir spurningunum eftir því sem efni standa til og tíminn leyfir. Ég spyr:

1. Hverju sætir að dómsmálaráðuneytið hefur ekki sjálft haft frumkvæði að því að upplýsa um símhleranir og eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar frá því á umliðnum árum? Telur ráðuneytið sjálft sig engar skyldur hafa í þeim efnum að þjóna sannleikanum í málinu?

2. Hversu umfangsmikil var þessi starfsemi hvað varðar fjölda þeirra sem símar voru hleraðir hjá og/eða spjaldskrár á grundvelli stjórnmálaskoðana færðar um? Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að ekkert liggur fyrir um að þær upplýsingar sem fræðimenn hafa komist í áður en aðgangi að þeim var lokað, samanber hina dæmalausu mismunun þjóðskjalavarðar sem neitar einum sagnfræðingi og það manni sem nokkuð örugglega var brotið á, umfram það sem hann var nýlega búinn að heimila öðrum aðgang að. Sem sagt, það er engin leið að vita hvort tæmandi mynd er enn komin á umfang þessara aðgerða.

3. Nákvæmlega hvernig var háttað samvinnu lögreglu og dómsmálaráðuneytis við bandaríska sendiráðið og leyniþjónustumenn þar og njósnadeildir hersins í Keflavík? Samstarfið og samvinnan eða þjónustan við bandarísk yfirvöld virðist hafa verið með ýmsum hætti. Bandaríkjamenn gáfu öryggisþjónustunni svokallaðan njósnabúnað, þjálfuðu menn og upplýsingum var miðlað til bandaríska sendiráðsins og/eða hersins um stjórnmálaskoðanir manna og áætlun virðist hafa verið í gangi um að byggja upp íslensku leyniþjónustustarfsemina eða leyniþjónustugetu í samstarfi við bandaríska sendiráðið.

4. Hvernig var háttað samstarfi og samskiptum ráðherra og skrifstofa flokka þeirra við íslenska og bandaríska leyniþjónustuaðila, t.d. varðandi mannaráðningar Bandaríkjahers. Í þessu sambandi virðist samkrull Sjálfstæðisflokksins og í einhverjum mæli hinna flokkanna sem studdu hersetuna, þ.e. Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, hafa náð hæstum hæðum því til viðbótar gögnum leyniþjónustunnar, gögnum úr kartótekinu fræga, sem Pétur Kristinsson hélt utan um að færa, voru notuð gögn úr merktum íbúaskrám eða kjörskrám flokkanna til að tryggja dyggum stuðningsmönnum hernámsflokkanna forgang að vinnu hjá hernum og útiloka hina. Í grein prófessorsins er talað um skrár gagnnjósnadeildar Bandaríkjahers og bandaríska sendiráðsins, sem erfitt er að ráða annað af samhenginu en íslenskir aðilar hafi hjálpað þessum aðilum að færa.

5. Hvenær lauk sérstakri eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi hjá lögreglunni eða hefur slík starfsemi farið fram í einhverjum mæli allt til þessa dags? Svona er spurt af því að mér vitanlega hefur hvergi komið fram opinberlega að þessari starfsemi hafi verið formlega hætt á einhverjum tilteknum tímapunkti. Þvert á móti kemur fram í grein Þórs Whiteheads að Bandaríkjamenn hafi haldið áfram að gefa hingað eftirlits- og njósnatæki allt til loka kalda stríðsins, eigum við þá að segja fram yfir eða fram um 1990? Og einhverjir hafa þá verið til þess að taka við þeim. Hverjir tóku við njósnabúnaði frá Bandaríkjamönnum allt fram um 1990, hæstv. dómsmálaráðherra? Ekki þarf að taka fram þessu til viðbótar að þrálátur orðrómur hefur verið uppi bæði um símhleranir og að einstaklingar og hópar, t.d. friðarsinnar og umhverfisverndarfólk hafi sætt slíku áfram og þegar sporin hræða svo sem raun ber vitni er von að spurt sé. Er eitthvað svona lagað í gangi enn þann dag í dag?

6. Á grundvelli hvaða lagaheimilda, þar með talið fjárheimilda, voru stundaðar símhleranir og rekin eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi? Eitthvað kostaði þetta. Var ekki farið frjálslega með fjárlög og fjárreiðulög eða slíkar heimildir síns tíma, að leyna þessari starfsemi og borga hana eftir krókaleiðum, dulbúa hana hjá stofnunum sem að lögum höfðu annað verksvið en hér átti í hlut?

7. Hverjir í stjórnsýslunni höfðu vitneskju um símhleranir og eftirgrennslanastarfsemi lögreglunnar? Fengu dómsmálaráðherrar þessa tíma eða e.t.v. fleiri ráðherrar upplýsingar sprottnar af þessari starfsemi í hendur? Voru þessi mál í einhverjum tilvikum borin upp eða kynnt í ríkisstjórn? Hefur hæstv. dómsmálaráðherra látið kanna fundargerðir ríkisstjórna í þessu sambandi?

8. Hyggst dómsmálaráðuneytið upplýsa þá einstaklinga, eða aðstandendur þeirra sem látnir eru, sem sættu símhlerunum eða öðrum persónunjósnum um það hve lengi eftirlitið stóð og annað sem máli skiptir í því sambandi? Verða þessi gögn opnuð fyrir viðkomandi aðila? Í Noregi var sett á fót önnur nefnd í framhaldi af rannsóknarnefndinni, svokölluð aðgangsnefnd, sem heldur utan um allt sem snýr að aðgangi einstaklinga að gögnunum og tryggir að þeir fái í hendur allar upplýsingar sem þeir eiga rétt á að sjá um sig sjálfa. Ráðuneytið hér hlýtur að hafa hugleitt eitthvað hvað því beri að gera í þessum efnum. Eða á kannski að skjóta sér á bak við það að allt saman hafi verið sent upp í Þjóðskjalasafn? Það er ekki stórbrotin málsvörn hjá ráðuneytinu sem hér á mesta sök.