133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þau atriði sem fram koma í grein eftir Þór Whitehead sagnfræðing og hæstv. dómsmálaráðherra vísaði ítrekað til eru grafalvarleg. Það er von að hæstv. ráðherra biðji menn um að skoða ekki fortíðina heldur horfa bara inn í framtíðina vegna þess að fortíð Sjálfstæðisflokksins þolir ekki skoðun í þessu máli. Það liggur fyrir að áratugum saman var haft í frammi eftirlit með vinstri mönnum á Íslandi. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað núna og halda því fram að það hafi verið lítið að vöxtum. Í greininni sem hann ítrekað vísaði til er því lýst hvernig skjalaskápur eftir skjalaskáp fylltist og að lokum fylltu skjalaskáparnir stóra skrifstofu.

Frú forseti. Það eru fjögur atriði sem ég tel vera aðalatriði í þeim upplýsingum sem komið hafa fram til þessa. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að grein Þórs Whiteheads sýnir svart á hvítu að frá upphafi hafa verið ákaflega náin og mjög óeðlileg tengsl á milli Sjálfstæðisflokksins og þess sem sagnfræðingurinn kallar strangleynilega öryggisþjónustu. Hún var ekki aðeins sett á stofn sem formleg starfseining undir forustu forkólfa Sjálfstæðisflokksins heldur sáu þeir til þess að hún væri alla tíð fjármögnuð úr leynisjóðum innan dómsmálaráðuneytisins. Það er alveg ljóst og það raunar staðfest af því sem hæstv. ráðherra sagði, að Alþingi var dulið um þessa starfsemi og tilgang hennar og það var blekkt til þess að fjármagna það.

Í öðru lagi má ráða af grein Þórs Whiteheads að íslenska öryggisþjónustan hafi látið bandarísku leyniþjónustunni í té upplýsingar um pólitískar skoðanir Íslendinga sem í dag væri að minnsta kosti fullkomið brot á lögum. Ég lýsi sorg minni yfir því að þetta skuli hafa verið gert.

Í þriðja lagi er upplýst að upplýsingarnar sem þessi íslenska leynilögregla aflaði voru notaðar til að koma í veg fyrir að menn með óæskilegar skoðanir fengju vinnu hjá hernum eða ákveðin störf hjá hinu opinbera. En þær voru líka notaðar til að víkja mönnum úr starfi. Um það tilgreinir Þór Whitehead dæmi.

Stjórnarskráin veitir öllum mönnum frelsi til að hafa skoðanir. En um leið og skoðanir þeirra eru notaðar til að meina þeim um atvinnu er líka búið að brjóta á þeim réttinn til frjálsra skoðana. Í þessu felst sönnun á því að að minnsta kosti skoðanafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar var brotið af Sjálfstæðisflokknum á nokkrum hópi manna.

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra talar eins og öryggisþjónustan hafi tilheyrt kalda stríðinu. Það vekur því í fjórða lagi mesta undrun mína að í grein Þórs Whiteheads koma fram upplýsingar um að hin strangleynilega öryggisþjónusta hafi starfað eftir að kalda stríðinu lauk. Þór segir skýrt, eins og hv. málshefjandi sagði áðan, að CIA gaf íslenskunni leynilögreglunni gjafir í formi tækja allt til ársins 1991. En merkilegra er þó að í framhjáhlaupi segir hann frá því að íslenskir öryggisþjónustumenn hafi gert rannsókn á því með tilstyrk þýskra kollega, eftir að kalda stríðinu lauk, hvort námsmenn austan tjalds hafi gerst erindrekar Stasi. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að íslenska öryggisþjónustan var enn í fullu fjöri og enn að rannsaka íslenska vinstri menn eftir 1991. Heimildin sem hann vísar til um þetta er einstaklingur sem var skrifstofustjóri varnamáladeildar um þetta leyti.

Þessi síðasta rannsókn sem vitað er um beindist ekki aðeins að alþingismönnum heldur hlýtur hún að hafa beinst líka að ráðherrum, sem fram undir þann tíma sem Þór segir að rannsóknin hafi farið fram, voru svo að segja að stíga úr ríkisstjórn.

Ég spyr: Hver fyrirskipaði þá rannsókn? Ég vil að það verði rannsakað sérstaklega hvernig (Forseti hringir.) starfsemi þessarar leynilegu og löglausu þjónustu var háttað eftir kalda stríðið.

Frú forseti. Enginn er betur til þess fallinn en hæstv. dómsmálaráðherra sem hefur upplýst (Forseti hringir.) að hann er eini núlifandi stjórnmálamaður á þingi sem hefur haft beina þekkingu á þessu síðan 1974.