133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:51]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi umræða, um mögulega leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda, eigi sér stað hér á hinu háa Alþingi, enda hefur umræðan um þessi mál verið nokkuð fyrirferðarmikil í opinberri umræðu á síðustu vikum.

Hitt finnst mér verra að í umræðum um þessa starfsemi á tímum kalda stríðsins hefur ýmsum röngum fullyrðingum verið varpað fram sem ég tel ástæðu til að leiðrétta. Ég held að allir þeir sem fjalla um þetta mál af einhverri sanngirni og þekkingu hljóti að viðurkenna að hér á Íslandi var ekki rekin leyniþjónusta í hefðbundnum skilningi þess orðs af hálfu stjórnvalda sem hafi haft með höndum víðtækar og ólögmætar persónunjósnir um borgarana. Það segir sig í rauninni sjálft að það var einfaldlega ekki nægur mannafli til þess að sinna slíkum störfum. Tveir menn geta ekki haldið uppi leyniþjónustu sem vinstri menn á Íslandi hafa lagt að jöfnu við leyniþjónustur kommúnistaríkjanna sálugu, KGB og Stasi.

Það má ekki gleyma því við hvaða aðstæður og í hvaða andrúmslofti Hermann Jónasson, fyrrverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, sá ástæðu til að koma á sérstöku eftirgrennslanakerfi í aðdraganda styrjaldarinnar 1939 en henni var komið á fót til þess að sporna við því grófa ofbeldi og hótunum sem fyrirmyndir íslenskra vinstri manna þá um stundir beittu gagnvart lögreglu og almennum borgurum hér á landi, t.d. í Gúttóslagnum og síðan í aðförinni að Alþingi árið 1949.

Ég hef tekið eftir því að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna þegja þunnu hljóði um framgöngu íslenskra kommúnista og sósíalista og minnast ekkert á þau ofbeldisverk sem þessir menn stóðu fyrir. Nei, þeir kalla þá friðarsinna. Það fór nú ekki mikið fyrir friðnum þegar hnullungunum rigndi inn í þingsali Alþingis. Nei, þvert á móti hafa vinstri menn á Íslandi reynt að slá ryki í augu almennings með því að telja fólki trú um að hér hafi verið rekin umfangsmikil leyniþjónusta sem hafi verið starfrækt af Sjálfstæðisflokknum og hún hafi beitt óvönduðum meðulum gagnvart kommúnistum og sósíalistum. Þeir sem leggjast hvað lægst í slíkum málflutningi hafa kallað þessa starfsemi leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Þessi umræða, frú forseti, er náttúrlega ekkert annað en ómerkileg og þeir dæma sig sjálfir sem taka þátt í henni á þessum forsendum.

Það er út í hött að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins í þessu samhengi. Það kemur fram í upphafi ritgerðar dr. Þórs Whiteheads í Þjóðmálum að það hafi verið Hermann Jónasson, fyrrverandi forsætis- og dómsmálaráðherra, sem fól lögreglustjóranum í Reykjavík að koma upp þessu eftirgrennslanakerfi. Þess vegna skil ég ekki hvernig vinstri sinnaðir menn sem hafa tjáð sig um þetta mál, eins og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður gerði í viðtali við Spegilinn í síðustu viku, geta talað um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Það kemur beinlínis fram í grein dr. Þórs Whiteheads að trúnaðarmenn úr Alþýðuflokknum hafi fengið lista um umsækjendur um varnarliðsvinnu og hafi borið þá saman við merktar kjörskrár þar sem leitað var upplýsinga um stjórnmálaskoðanir manna sem voru skráðir á listanum. Það fer nú lítið fyrir þessu í umræðunni um þetta mál, sérstaklega frá fulltrúum Samfylkingarinnar og af hverju skyldi það nú vera? Jú, það er væntanlega vegna þess að Samfylkingin er að grunni til reist á Alþýðuflokknum.

Það er líka sorglegt að sjá hvernig þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, tekur í sama streng í pistlum á heimasíðu sinni sem birtust þar í gær og sömuleiðis í Fréttablaðinu í dag, sem bera einmitt yfirskriftina Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert hægt að bjóða upp á svona málflutning í tengslum við þetta mál. Hér er ekkert á ferðinni annað en lýðskrum sem virðist vera þannig að sumum þeim sem taka þátt í þessari umræðu sé algjörlega sama um það hvort þeir fara vísvitandi rangt með staðreyndir ef það þjónar málstaðnum. Það hefur verið gert í þessu máli, því miður.

Frú forseti. Ég geri enga athugasemd við að hafin verði sagnfræðileg rannsókn á leyniþjónustustarfsemi á Íslandi á síðustu árum og áratugum. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að við slíka rannsókn verði farið sérstaklega yfir samstarf íslenskra kommúnista og sósíalista við ráðamenn og leyniþjónustur kommúnistaríkjanna, einkum Austur-Þýskalands og Sovétríkjanna. Það vekur reyndar furðu mína að málshefjandi skuli ekki hafa vikið neitt að þessum þætti málsins í ræðu sinni. Ég er hins vegar sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það þurfi að hreinsa upp hið liðna, það þarf allt að koma upp á borðið. Það þarf t.d. að upplýsa hvers vegna kommúnistastjórnin í Sovétríkjunum greiddi sósíalistum á Íslandi milljónatugi úr leynisjóðum sínum á tímum kalda stríðsins, þar á meðal til Sósíalistaflokksins, Þjóðviljans, MÍR, Máls og menningar og annarra samtaka. Það þarf líka að upplýsa um tengsl íslenskra kommúnista við leiðtoga Ráðstjórnarríkjanna, það þarf að upplýsa um það hvaða menn voru sendir til náms í Austur-Þýskalandi gagngert til þess að grafa undan íslensku samfélagi og því þjóðskipulagi sem við búum við. Það þarf að upplýsa um það hvers vegna börn voru allt fram á níunda áratuginn send til fyrirmyndarfjölskyldna í Austur-Þýskalandi til að fræðast um fyrirmyndarþjóðfélagið og það þarf að upplýsa um það hvers vegna íslenskum kommúnistum voru greidd eftirlaun frá ríkisstjórninni í Sovétríkjunum. (Forseti hringir.) Það þarf enginn að segja mér, frú forseti, að kommúnistaríkin sálugu hafi lagt í þetta allt saman af einstæðri (Forseti hringir.) góðmennsku. Þau vildu fá eitthvað í staðinn og það þarf að upplýsa hvað það var.