133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þessi tillaga er eins og fram kom hjá hv. 1. flutningsmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, sameiginleg tillaga fulltrúa þriggja flokka í stjórnarandstöðu, umhverfisnefndarmanna allra saman, og síðan hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem kemur úr Framsóknarflokki og situr með okkur í umhverfisnefnd. Hún var sem slík fyrst flutt í fyrra en á sér lengri sögu eins og fram kemur í greinargerð.

Það er kannski rétt að bæta því við vegna þess að hún er hér flutt af fulltrúum fjögurra flokka á Alþingi að hinn upphaflegi flutningsmaður þessarar tillögu eða tillögu í þessum dúr var reyndar úr hinum fimmta, Katrín Fjeldsted sem sat á þingi á sínum tíma en gerir það því miður ekki lengur, sem er kannski til marks um framgang náttúruverndar í hennar flokki.

Ég sé að 1. flutningsmaður bankar í borðið þannig að ég er kannski ekki með fulla nákvæmni í mínu máli. Ég biðst þá afsökunar á því, en að minnsta kosti flutti Katrín þessa tillögu á þinginu 2003 eða 2004 að mig minnir.

Þjórsárver hafa frá því fyrir 35–40 árum verið í miðpunkti þeirrar sögu sem síðan hefur gerst hér á landi um umhverfismál og virkjanir. Það er við hæfi að samstaða stjórnarandstöðuflokkanna í umhverfismálum, að ógleymdum Kristni H. Gunnarssyni og hugsanlega einhverjum fleiri úr Framsóknarflokknum, snúist um verin.

Um 1970 var nefnilega lagt til af orkuspekúlöntum og reyndar fræðimönnum að á þessu svæði yrði búið til lón sem héti því ágæta nafni Eyjavatn. Það átti að vera um 200 ferkílómetrar sem er fjórum eða fimm sinnum stærð Mývatns. Það átti að ná yfir allt svæðið og leggja Þjórsárver nánast algjörlega undir sig og ná langt suður eftir landinu. Hæðin átti að vera 593 metrar og það var farið af stað í þann leiðangur að telja mönnum trú um eða reyna að sannfæra menn um að þetta væri skynsamleg notkun á landinu. En þetta var á þeim tímum, sem margnefndur Andri Snær Magnason hefur gert ágæt skil í bók sinni, þegar talað var um að skipta landinu í tvennt, í virkjanasvæði og veiðisvæði. Það væru svona nokkurn veginn þau landnot sem hér ættu að vera.

Það var líka merkilegt, mikilvægur punktur, samkomulagið sem gert var 1981 á milli náttúruverndarmanna og reyndar heimamanna að hluta og síðan stjórnvalda og þá sérstaklega Landsvirkjunar þegar Kvíslaveita var samþykkt, fimm áfangar hennar, en áskilið að Þjórsárver eða stór hluti þeirra yrði að friðlandi og að ekki yrði farið í það sem þá var kallað Kvíslaveita 6. Það er svo auðvitað enn einn punkturinn í þessari sögu þegar verin voru lýst Ramsarsvæði árið 1990 þó að lítið hafi verið gert í framhaldi á því.

Síðari sögu þessa máls ætla ég ekki að rekja hér þótt það væri hægt og geri það ef óskað er eftir, en hún er hingað komin að Þjórsárver eru að forminu til í mjög mikilli hættu. Það hefur ekki verið ákveðið í skipulagi hvernig því skuli háttað á þessu svæði. Í raforkulögum er kveðið á um leyfi til að koma upp Norðlingaölduveitu og stendur í sjálfu sér ekkert á því að Landsvirkjun fari í þá veitu nema skipulagið. Þannig stendur þetta að formi til en í hugum manna hefur hins vegar margt gerst. Það hefur gerst sem betur fer tiltölulega hratt á síðustu árum. Flokkar hafa tekið þá afstöðu að vernda þetta svæði, nú þrír flokkar og ég býð spenntur eftir að vita hvað gerist hjá hinum fjórða þegar hæstv. umhverfisráðherra hefur ræðu sína á eftir, sem mér sýnist hún vera að búa sig til. Það er mikils um vert ef okkur tekst að ná saman um að friða Þjórsárverin öll og stækka friðlandið, að ég tali ekki um að hefja undirbúning að því að koma öllu þessu svæði saman á heimsminjaskrá.

Rétt er og við hæfi að þakka hér úr þessum stóli þegar svona er komið, að mati a.m.k. bjartsýnna manna, þeim sem hafa borið hitann og þungann af þessu máli, því að það hafa ekki verið við stjórnmálamenn í flokkunum þó að við viljum láta þakka okkur margt. Þótt náttúruverndarmenn um allt land hafi lagt sitt lóð á vogarskálina voru það heldur ekki þeir sem réðu úrslitum heldur var það staðfesta heimamanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, einkum hinum gamla, forna Gnúpverjahreppi, sem létu ekki sífelldan áróður, boðskap um þá asna klyfjaða gulli sem á leiðinni væru, þrýsting og hótanir, hafa áhrif á sig heldur stóðu með sínum stað, með dýrmætunum í sinni sveit allan tímann og gera enn. Ég held að við ættum að sameinast núna um að þakka þessu fólki, því sem lífs er og því sem liðið er, fyrir að hafa haldið uppi merkinu. Ég vil ljúka ræðu minni með þeim orðum.