133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:47]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er mikilsvert þingmál á ferðinni sem er eitt af þeim þingmálum sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sameinast um að flytja auk hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þetta er eitt af mikilvægustu þingmálunum og hefur verið flutt hér áður, eins og fram hefur komið, og hefur náðst nokkur áfangi í málinu.

Fyrir fjórum, fimm árum var ég staddur á fundi uppi í Árnesi sem nokkrir heimamenn í Gnúpverjahreppi héldu til að blása til sóknar í baráttunni fyrir friðun Þjórsárvera og verndun þegar við blasti að þar ætti að reisa Norðlingaölduveitu.

Sú sókn tókst mjög vel. Þar börðust margir mjög glæsilegri baráttu. Ég held að ekki sé hallað á neinn þó Sigþrúðar Jónsdóttur sé þar sérstaklega getið. Hún leiddi þá baráttu af miklu harðfylgi og miklum dugnaði fyrir stækkun friðlands Þjórsárvera og gegn því að Norðlingaölduveita yrði þar reist. Málið var að sjálfsögðu mikið deilumál þar upp frá eins víðast annars staðar.

Þá stóðu heimamenn að mikilli undirskriftarsöfnun fyrir nokkrum árum til stuðnings málinu og gerðu margt til að vekja rækilega athygli á því hve mikilvægt er að þessi stærsta og gróðurríkasta votlendisvin á hálendi Íslands skuli vernduð í heild sinni.

Það blasir við, eins og umræðan er núna, að töluverð sátt virðist vera um það í samfélaginu að þessa náttúruperlu skuli vernda og á hana skuli ekki gengið í þágu virkjana og stóriðju. Það er mjög ánægjuleg þróun sem hefur átt sér stað í pólitískri umræðu um Þjórsárver. Þetta mál hefur verið til umræðu allt frá 1970, eða þar um bil, þegar mikill baráttufundur var fyrst haldinn um fyrirhugaðar framkvæmdir um veitu þarna upp frá sem mundi skerða mjög verin.

Það hefur sem sagt verið mikil umræða um það síðan. Frá því, eins og hér segir, að tillagan var upphaflega lögð fram hefur baráttunni um friðun Þjórsárvera aukist mjög atfylgi. Þeim hefur fjölgað mjög sem vilja að Þjórsárver njóti verndar þannig að vistkerfið raskist ekki og þessi sérstaka landslagsheild fái að halda sér eins og hún er. Það hefur verið virkjað þarna niður eftir allri ánni og gengið mjög á Þjórsána sem slíka og henni breytt mjög, farvegi hennar og fossum. Miklu hefur verið fórnað þarna.

En það er sérstaklega ánægjulegt að sátt skuli nást á milli allra stjórnarandstöðuflokkanna og þingmanna úr stjórnarliði, bæði þeirra sem nú sitja á Alþingi og þeirra sem sátu áður — og nefndir hafa verið í umræðunni — um að þetta sé eitt af baráttumálunum. Það skuli setja ný friðlandsmörk í Þjórsárverum svo verndunin nái tilgangi sínum og Þjórsárverin verði um aldur og ævi vernduð fyrir frekari virkjunarhugleiðingum og virkjunarframkvæmdum.

Því ber að fagna og ég hef tvisvar eða þrisvar áður lýst yfir stuðningi við þetta mál. Síðan þá hefur þeim fjölgað mjög sem vilja friða Þjórsárverin og leggja þar ný friðlandsmörk. Um það er ekkert nema gott að segja.

Krafan um að hætt verði við áform um Norðlingaölduveitu er hávær. Hún er almenn. Það er að mínu mati víðtæk sátt í samfélaginu um að þessari náttúruperlu skuli ekki fórnað með neinum hætti. Það mundi upphefjast hatrömm og langvinn deila ef til stæði að ganga með nokkrum hætti á hana.