133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:59]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Seinni hluti tillögu til þingsályktunar sem við ræðum hér snýr að því að vinna að því að hið stækkaða Þjórsárverafriðland verði tilnefnt á heimsminjaskrá UNESCO. Ef við skoðum greinargerðina er vísað hér í tvo ágæta og mjög færa sérfræðinga um þetta mál. Þeir hafa sagt að þeirra skoðun sé sú að núverandi friðlandsmörk séu algerlega ófullnægjandi og þeir telji nauðsynlegt að stækka friðlandið til mikilla muna svo verndunin nái tilgangi sínum. Sem það gerir náttúrlega ekki endilega með þeim beinu línum sem eru dregnar á þessu korti.

Síðan segir nánar í greinargerðinni: Það segir sína sögu að báðir telja að svæðið eigi það skilið að um það verði fjallað á vettvangi heimsminjaskrárinnar og kannað til hlítar hvort það búi yfir þeim kostum.

Það er nú kannski skemmst frá því að segja að innan ráðuneytisins er enginn undirbúningur hafinn að þessu. Ég tel að næsta málið sé að ljúka þessari stækkun friðlandsins áður en menn huga að könnun á því hvort Þjórsárverin eiga heima á heimsminjaskránni.