133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ekki að orðlengja að stuðningur hæstv. umhverfisráðherra við málið er ákaflega mikilsverður og verður að ætla að þau tvö, hæstv. ráðherra Jónína Bjartmarz og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, tali hér fyrir hönd Framsóknarflokksins alls. Þá eru komnir fjórir flokkar af fimm á þinginu sem vilja stækka friðlandið í Þjórsárverum.

Til að taka af öll tvímæli þá er það þannig að í landinu eru lög um raforkuver, ekki raforkulögin, eins og mér varð á að segja áðan, sem eru beinlínis andstæð þessu áhugamáli okkar. Þar er Landsvirkjun talið heimilt, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra, að reisa og reka vatnsmiðlun með Norðlingaölduveitu sem allir vita að mundi eyðileggja verulegan hluta þessa friðlands og koma í veg fyrir þessa stækkun. Hér þarf því bæði að segja A og B. Ég vil bara ganga úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll að umhverfisráðherra hyggist, þótt síðar verði á þessu þingi eða kannski enn síðar, styðja frumvarp um breytingu á lögum um raforkuver, um að fella út heimildina til þess að reisa Norðlingaölduveitu.