133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:08]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki skilið ráðherrann öðruvísi en svo að hún væri fylgjandi þessum áformum. En ég þekki býsna vel, af því að ég á heima í umræddri sveit og hef átt heima þar í 30 ár, frá því að ég var 6 ára gamall, fyrst inni í Búrfellsvirkjun og núna á bænum Skarði í Gnúpverja- og Skeiðahreppi, þessa umræðu og hef fylgst mjög náið með henni í mörg ár. Ég er ekki að slá neinu fram út af því að það sé komið á framkvæmdastig.

Ég hef fylgst með umræðunni lengi og tekið þátt í henni með öðrum heimamönnum. Ég veit af andstöðu ýmissa við þessi áform. Ég gæti nefnt nöfn þeirra, fólks sem hefur vakið þjóðarathygli, eins og Jóhönnu í Haga og Sigþrúðar Jónsdóttur, sem ég nefndi áðan. Ég gæti nefnt fleiri, fólk sem liggur ekkert á skoðunum sínum og hefur kynnt þær á opinberum vettvangi.

Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að kynna sér það mál betur um leið og ég harma þá jákvæðu tóna sem var að finna hjá henni í garð þessara rennslisvirkjana í neðri Þjórsá.