133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:11]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Til að forðast allan misskilning vil ég strax segja að ég fagna mjög þátttöku hæstv. umhverfisráðherra í þessari umræðu, sem henni var auðvitað ekki skylt að taka þátt í. Hún gerir það af fúsum og frjálsum vilja og gaf mjög mikilvægar yfirlýsingar í framhaldi af þeim sem gefnar voru í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra.

Hins vegar verða menn, ef þeir ganga hér til umræðu, að sæta því að fá á sig andsvör, sem ekki eru öll endilega fjandsamleg. Það er auðvitað hverjum í sjálfsvald sett hvort hann bregst við þeim andsvörum en ég verð nú að segja að mér þykir eðlilegt og þinglegt að gera svo þegar um er að ræða beinar spurningar til ræðumanns en ef til vill síður þegar um er að ræða leiðréttingar, eins og var hér fyrr í umræðunni.

Ég lagði spurningu fyrir ráðherrann sem mér finnst eðlilegt að ráðherrann svari. Ég bið hæstv. umhverfisráðherra að gera það í andsvari við ræðu minni. Ég hef skapað tækifæri til þess að það gerist og geri ráð fyrir, a.m.k. þar til annað kemur í ljós, að þetta hafi einfaldlega verið einhvers konar mistök eða vangá af hálfu ráðherrans.

Spurningin var þessi: Þar sem okkur er annt um friðlandið í Þjórsárverum og viljum stækka það og þar sem umhverfisráðherra hefur komið á fót starfshópi þar sem sjónarmið heimamanna koma m.a. fram, tekur þá ekki umhverfisráðherra undir þá meginhugmynd framkomins frumvarps til laga — jafnvel þótt hún kunni að geyma afstöðu sína til sjálfs frumvarpsins þangað til kemur að atkvæðagreiðslu um það — að það beri að fella út úr lögunum um raforkuver leyfi það eða þá heimild sem Landsvirkjun fékk þar til þess að reisa og reka vatnsmiðlunina Norðlingaölduveitu?