133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:16]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur treyst því að ég legg mjög vel við hlustir þegar hann talar, ekki síst um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, en það fór fram hjá mér að hv. þingmaður óskaði sérstaklega eftir svari.

Mig langar, herra forseti, í lok þessarar umræðu að þakka fyrir hana. Það er ljóst eins og ég sagði í upphafi, að áhugamenn um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum tilheyra ekki eingöngu stjórnarandstöðuflokkunum hér á Alþingi heldur jafnframt stjórnarflokkunum og sú sem hér stendur er ein af þeim, auk þeirra sem ég hef áður tilnefnt, þ.e. fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, Katrín Fjeldsted þingmaður, og ég leyfi mér að fullvissa hv. þingmenn, sem eru viðstaddir þessa umræðu og taka þátt í henni, að það eru einnig fjölmargir aðrir, eins og hefur komið fram í umræðunni. Viðhorfin hafa breyst, stuðningurinn við þessa stækkun er alltaf að eflast og ég gaf það út fljótlega eftir að ég kom í umhverfisráðuneytið í sumar, eftir að dómur gekk, að afstaða mín væri sú að stækka ætti friðlandið og ég ákvað að stíga næsta skref sem var að formgera þá afstöðu í samráði við heimamenn. Stuðningur minn við meginmál og efni þessarar þingsályktunartillögu er því alveg ljós. Ég vænti þess að stuðningur hv. þingmanna, flutningsmanna þessa máls, sé líka einhlítur við vinnu starfshópsins og við séum sammála um að bíða eftir því að sjá hver niðurstaðan úr þeirri vinnu verður og hvaða tillögur koma frá starfshópnum um stækkunina og breytingar á friðlandinu og skilmálana sem lagðir verða til grundvallar.