133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:33]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Í dag, 10. október, er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og um allan heim er dagurinn notaður til að vekja athygli á málefnum geðsjúkra og geðfatlaðra.

Um helgina ræddi ég við gamlan félaga. Hann hefur lengi átt við geðsjúkdóm að stríða og dvalið langdvölum á stofnunum. Nú var hins vegar nýr svipur á honum. Hann var brattur og bar sig vel. Hann býr nú sjálfstætt utan stofnunar, er virkur og líður vel með sjúkdómi sínum.

Þessi saga er dæmi um áherslubreytingar sem eru að verða í þjónustu við geðfatlaða og það þarf að ganga lengra á þeirri braut.

Í morgun átti ég þess kost að sækja ráðstefnu sem skipulögð var á vegum ýmissa opinberra aðila undir yfirskriftinni „Ný hugsun í geðheilbrigðismálum“. Þar sagði einn aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, Héðinn Unnsteinsson, að geðheilbrigðismál hér á landi væru á ákveðnum krossgötum. Ég tel það vera orð að sönnu. Það er ákveðin vakning í gangi í samfélaginu varðandi geðheilbrigðismál og ég hef miklar væntingar um að hún leiði til bættrar stöðu geðsjúkra og geðfatlaðra. Meginatriðið er að notendur þjónustunnar hafa skapað sér rödd og vilja hafa áhrif á áherslur, hugmyndafræði, skipulag og framboð þjónustu sem er þeim til handa. Áherslan er á að geðfötlun þarf ekki að vera viðvarandi. Hún er afturkræf og það þarf að leggja áherslu á batann, ekki sjúkdóminn. Með slíkri jákvæðri nálgun fær vonin vængi hjá hinum sjúka og aðstandendum hans sem er nauðsynleg í allri glímu við erfiðleika í lífinu. Áherslan er frá stofnanaþjónustu til samfélagslegrar þjónustu. Það þýðir að í stað stofnanavistunar er geðfötluðum gefinn kostur á sjálfstæðri búsetu utan stofnana sem hvetur þá til virkrar þátttöku í lífinu og í starfinu. Þannig stuðla þeir að bata og aðlögun að sjúkdómi sínum. Áherslan er á að auka val notenda á þjónustu sem hentar hverjum og einum.

Í tilefni dagsins vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig þessar breyttu áherslur birtist í stefnumótun heilbrigðisráðuneytisins og hvernig hún muni beita sér fyrir samhæfingu á þjónustu við geðfatlaða og geðsjúka, en málefni þeirra falla í dag undir fleiri en eitt ráðuneyti.